Veðurstofa Íslands greinir frá því að vatn hafi farið að renna frá Eystri Skaftárkatli í gær. Á grafi sem Veðurstofan birtir á Facebook-síðu sinni, og má sjá hér að neðan, má sjá lækkun íshellunnar yfir katlinum í nótt.
„Sigið herðir á sér og hlaup er hafið,“ segir á Facebook-síðu Veðurstofunnar. Þar kemur fram að hlaup úr eystri kaltinum séu stærri og sjaldnar en hlaup úr þeim vestari. Síðast hljóp úr katlinum í júní árið 2010.

Fundur stendur yfir hjá Veðurstofu Íslands vegna hlaupsins og verða ekki frekari upplýsingar að fá þaðan fyrr en eftir hádegi. Reikna má með því að í kjölfarið verði send út tilkynning frá Almannavörnum eða Veðurstofunni.
Í handbók Veðurstofunnar (PDF-linkur) um Skaftárhlaup segir að hlaupin komi úr svokölluðum Skaftárkötlum í vestanverðum Vatnajökli við það að jarðhiti bræðir jökulinn.
„Bræðsluvatnið safnast saman undir jöklinum og hleypur fram þegar vatnsþrýstingur er orðinn svo hár að farg jökulsins nær ekki að halda aftur af því. Vatnið rennur þangað sem fyrirstaða er minnst, þ.e. er í farveg Skaftár.“

Skafthlárhlaup engar stórfréttir
„Skaftárhlaup eru næstum því árleg. Þetta eru engar stórfréttir,“ segir Magnús Tumi Guðmundsson jarðeðlisfræðingur.
Magnús Tumi segir stóru fréttina þá að heil fimm ár eru frá síðasta hlaupi í Skaftá. Ekki sé um neinar náttúruhamfarir að ræða. Vatn sé ekki byrjað að renna í ána heldur séu það nákvæm mælitæki Veðurstofu Íslands á staðnum sem sýni lækkun íshellunnar.
Þannig megi sjá nákvæman feril þess þegar jökullinn sígur og þá hvenær vatnið byrjar að leita undir jökulinn.