Í Fló & Fransí er að finna vandaða barna- og dömuskó. Verslunin er staðsett þar sem Pipar og salt var áður til húsa. Margir sakna þeirrar verslunar enda var hún rekin við góðan orðstír í ein 28 ár. Þær systur hafa þó fengið góðar viðtökur. „Við leggjum ríka áherslu á fallegar og vandaðar vörur og ég hef heyrt viðskiptavini segja að þessi búð sé sú eina sem geti réttlætt það að Pipar og salt sé farin. Okkur þykir auðvitað voðalega vænt um að heyra það,“ segir Kristín.

Kristín er með nokkur rótgróin merki í Fló en skórnir eru fyrir börn á aldrinum eins til tólf ára. „Sum merkin hafa ekki fengist hér á landi áður og önnur ekki verið fáanleg í lengri tíma. „Ég er meðal annars með skó frá Angulus sem er mjög hátt skrifað merki í Danmörku. Sömuleiðis frá Bundgaard og Enfant. Þá er ég með talsvert úrval frá Kickers en það merki hefur ekki fengist hér á landi í fjölda ára. Eins hefur króatíska merkinu Froddo verið vel tekið en þar er um að ræða vandaða leðurskó á mjög góðu verði.“
Kristínu finnst gaman að bjóða upp á eitthvað nýtt og viðskiptavinirnir kunna að meta það. „Þá eru margir mjög þakklátir fyrir að fá svona verslun í miðbæinn og margir sem tala um að verslun sem þessa hafi vantað í flóruna.“
Í Fransí er stærsti hluti úrvalsins frá danska framleiðandanum Billi bi en merkið hefur notið mikilla vinsælda hér á landi og fæst bæði í GS-skóm og Evu. „Ég verð með mesta úrvalið í Fransí og er nafnið valið með hliðsjón af því, en Fransí er fyrirtækjanafn Billi bi. Auk þess verð ég með Comfort-línu frá spænska merkinu Brako og loks ýmsar nýjar gerðir af skóm frá Tatuaggi, en það er portúgalskt merki sem hefur selst mjög vel í GS-skóm. Svo er von á ýmsum nýjungum von bráðar,“ upplýsir Svava.
Í Fransí er líkt og í Fló lögð höfuðáhersla á gæði og fallega hönnun og skórnir valdir með það í huga. Aðspurðar segja þær systur verðið engu að síður mjög samkeppnishæft. „Dömuskórnir eru flestir á bilinu tuttugu til þrjátíu þúsund og barnaskórnir flestir á bilinu tíu til fimmtán þúsund.“

Aðspurðar segjast þær systur ávallt hafa unnið vel saman. „Við höfum líka svo gaman af því sem við erum að gera og gætum verið í vinnunni allan sólarhringinn ef við kæmumst upp með það.“
„Það er líka gaman að byggja upp eitthvað nýtt og mér líður svolítið eins og þegar ég var bara með eina Sautján-verslun. Þetta er verkefni sem þarf að hlúa að og vökva vel og vonandi springur það út. Hver veit nema það verði til fleiri Fló&Fransí verslanir í framtíðinni,“ segir Svava.
Systurnar hefja langa opnunarhelgi í dag og verða ýmis tilboð í versluninni. „Þá verðum við með sérstakt opnunarpartý milli 16 og 20 á morgun, föstudag og bjóðum upp á léttar veitingar. Veðurspáin er góð og við vonumst til að sem flestir líti við.“