Erlent

Hætta þjálfun sýrlenskra uppreisnarmanna

Samúel Karl Ólason skrifar
Uppreisnarhópar eins og Free Syrian Army hafa fengið vopn sem þessi frá Bandaríkjunum. Um er að ræða skeyti sem sérhönnuð eru til að granda skriðdrekum og víggyrtum byrgjum.
Uppreisnarhópar eins og Free Syrian Army hafa fengið vopn sem þessi frá Bandaríkjunum. Um er að ræða skeyti sem sérhönnuð eru til að granda skriðdrekum og víggyrtum byrgjum. Vísir
Stjórnvöld Í Bandaríkjunum hafa bundið endi á þjálfunarverkefni í Sýrlandi. Verkefnið gekk út á að þjálfa upp „hófsama uppreisnarmenn“ og gefa þeim vopn til að berjast gegn Íslamska ríkinu. Hingað til hefur verkefnið kostað um hálfan milljarð dala, um 62 milljarða króna, og hefur skilað litlum sem engum árangri.

Einungis 80 menn luku þjálfun í nágrannaríkjum Sýrlands og flestir þeirra voru handsamaðir, felldir eða þeir flúðu, mjög fljótlega eftir komuna til Sýrlands.

AP fréttaveitan hefur eftir Ash Carter, varnamálaráðherra Bandaríkjanna, að til standi að koma þeim mönnum sem enn eru í þjálfun fyrir innan annarra vopnaðra hópa eins og Kúrda eða uppreisnarmanna. Hann sagði að samstarf Bandaríkjanna og Kúrda hefði reynst farsælt og þannig samstarf vildu þeir eiga með öðrum hópum innan Sýrlands.

Þjálfaðir í Tyrklandi

Menn yrðu þjálfaðir til að veita upplýsingar um möguleg skotmörk og kalla eftir loftárásum. Samkvæmt upplýsingum New York Times, yrðu þeir menn þjálfaðir í Tyrklandi.

Auk þess að þjálfa hóp Sýrlendinga til að berjast við ISIS hafa Bandaríkin stutt við ákveðna uppreisnarhópa í Sýrlandi í baráttu þeirra gegn stjórnarher Bashar al-Assad, forseta Sýrlands. Þeir hópar hafa fengið vopn og frekari búnað í gegnum CIA, leyniþjónustu Bandaríkjanna.

Um er að ræða tvo mismunandi hópa, en eitt skilyrði fyrir þjálfun Bandaríkjanna var að þeir sem hlytu hana, mættu ekki berjast gegn Assad, einungis Íslamska ríkinu.

Carter segir að Bandaríkin vilji starfa frekar með þeim hópum sem hafa verið studdir gegnum CIA, leyniþjónustu Bandaríkjanna, en Rússar hafa undanfarna daga stutt stjórnarher Sýrlands gegn þeim hópum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×