Viðbrögðin við fréttum af því að Útlendingastofnun hefði synjað beiðni albönsku fjölskyldunnar um hæli vakti sterk viðbrögð á samfélagsmiðlum.
Aleka Telati segir að þau hafi orðið fyrir djúpum vonbrigðum þegar þau fengu synjunina í hendur. Þau hafi ákveðið að áfrýja en eigi veika von um aðra niðurstöðu. Áfrýjunin tekur allt að tvo mánuði en þá verða þau flutt rakleiðis aftur til Albaníu. Hún segir að þau muni hins vegar reyna að komast hingað til lands aftur til að dvelja hér og vinna. Hér líki þeim vel og börnin þeirra hafi aldrei verið ánægðari.
Petrit litli á níu ára afmæli í dag en hann hefur eignast marga vini í nýja skólanum og er farinn að æfa fótbolta. Laura og Janie eru 16 og 13 ára.
Skólagangan verður ekki löng
Fjölskyldan segist ekki eiga neina framtíð í Albaníu og börnin kvíða þess að vera flutt á brott. Þau leggja áherslu á að þau séu ekki að biðja um ölmusu, þau vilji vinna og greiða fyrir sig.
Hasan er kokkur og húsamálari en hefur ekki atvinnu- og dvalarleyfi. Hann segist fyrst og fremst leyfi til að búa hér og vinna og sjá fyrir fjölskyldu sinni. Í sama streng tekur Laura dóttir hans. Fjölskyldan komst í fréttirnar fyrir þremur vikum þegar greint var frá því að börnin þeirra þrjú hefðu ekki fengið inni í skóla þrátt fyrir að hafa verið hér frá því í júní. Nú er ljóst að nýtilkomin skólaganga þeirra hér mun að öllum líkindum fá snöggan endi.
Sigrún Þórarinsdóttir nágranni þeirra sagðist afar sleginn yfir þessum fréttum. Það væri hræðilegt að þau fengju ekki að búa hér og starfa rétt eins og hún sjálf.