Langt en ekki leiðinlegt Jónas Sen skrifar 10. október 2015 10:00 Víkingur Heiðar fór á kostum með Sinfóníuhljómsveit Íslands. Visir/GVA Verk eftir Beethoven, Skrjabín og Schubert. Sinfóníuhljómsveit Íslands lék í Eldborg í Hörpu. Fimmtudagur 8. október. Einleikari: Víkingur Heiðar Ólafsson. Stjórnandi: Eivind Aadland. Einu sinni sagði illgjarn tónlistargagnrýnandi þetta: „Lífið er stutt og listin löng, það á sérstaklega við um Brahms-sinfóníu.“ Með þessu var hann að meina að hin tiltekna sinfónía væri svo löng að hún dræpi mann úr leiðindum. Kannski væri hægt að segja eitthvað svipað um níundu sinfóníu Schuberts, sem flutt var á tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands á fimmtudagskvöldið. Hún tekur hátt í klukkutíma í flutningi, og er lengri en nokkur sinfónía eftir Brahms. En sinfónían var alls ekki leiðinleg. Hinn norski Eivind Aadland hélt um stjórntaumana og túlkun hans einkenndist af látleysi og einfaldleika. Tónlistin fékk að flæða áreynslulaust. Fyrsti kaflinn þróaðist eðlilega, frá dulúðugu upphafinu yfir í tignarlegan lokapartinn. Hröðu kaflarnir voru líka skemmtilega snarpir og líflegir. Hægur annar þátturinn var jafnframt afar fallegur. Þar má segja að sé hjarta sinfóníunnar. Kaflinn hefst á grípandi stefi en síðan tekur við eins konar viðlag sem er endurtekið ótal sinnum. Nú geta svo margar endurtekningar auðveldlega orðið óþolandi, en ekki hér. Flutningurinn var einfaldlega of ferskur og fjörlegur. Tæknilega séð var leikur hljómsveitarinnar vandaður. Hann var að vísu örlítið ósamtaka af og til, en ekki þannig að það væri óþægilegt. Einstaka hnökrar eru jú eðlilegir í lifandi flutningi. Aðalatriðið var að spilamennskan var fókuseruð, rétta andrúmsloftið var sífellt til staðar. Fyrir bragðið tapaði maður aldrei athyglinni. Þegar svo löng sinfónía er annars vegar, þá telst það þrekvirki. Auk Schuberts var Coriolan-forleikurinn eftir Beethoven á dagskránni. Líka píanókonsertinn eftir Skrjabín. Um forleikinn þarf ekki að hafa mörg orð. Hann hljómaði ágætlega! Konsert Skrjabíns taldist til meiri tíðinda, enda hefur hann aldrei verið fluttur á tónleikum hér á landi áður. Um þessar mundir eru 100 ár síðan Skrjabín lést, og það er kominn tími til að þessi mikli snillingur fái veglegan sess í tónleikalífinu. Rétt eins og í tilfelli Beethovens, þá má skipta tónlist Skrjabíns í mismunandi tímabil. Fyrra tímabilið einkenndist af síðrómantískum anda. Tónmálið var í hefðbundnum dúr og moll, stemningin full af myrkum ástríðum. En um þrítugt fékk Skrjabín áhuga á dulspeki. Tónlist hans fór þá að vera vettvangur fyrir alls konar fantasíur sem ekki voru af þessum heimi. Músíkin breyttist, hljómarnir urðu annarlegir, laglínurnar spúkí. Píanókonsertinn sem hér var spilaður tilheyrir fyrra tímabilinu í lífi Skrjabíns. Víkingur Heiðar Ólafsson var einleikarinn og túlkun hans var ákaflega sannfærandi. Hún var dreymandi, en líka ofsafengin, þrungin tilfinningum og það var í henni dökk undiralda. Hinn lýríski rauði þráður slitnaði aldrei. Þetta er ekki auðveld tónsmíð, tæknikröfurnar eru umtalsverðar, en Víkingur hafði ekkert fyrir þeim. Útkoman var mögnuð. Aukalögin voru tvö, eftir Rameau og Brahms. Víkingur tileinkaði þau fyrsta píanókennaranum sínum, Erlu Stefánsdóttur sem lést fyrir skömmu. Það var góð kona. Hún hefur greinilega kennt Víkingi vel á píanó.Niðurstaða: Níunda sinfónía Schuberts var hrífandi og píanókonsert Skrjabíns var unaður. Menning Tónlistargagnrýni Mest lesið Eiga nú glöðustu hunda í heimi Lífið Steven og Guðný Ósk eru nýtt par Lífið Fræga fólkið streymdi á hápunkt ársins í Þjóðleikhúsinu Lífið Lést eftir að hafa fallið úr bíl á ferð Lífið Björn Ingi leikur í ofurhetjumynd Lífið Brúðkaup ársins 2024 Lífið Sjáðu Sandler snúa aftur sem Happy Gilmore í nýrri kitlu Lífið Jólagjafir íslenskra vinnustaða Lífið Bestu, stærstu, slökustu og verstu myndir ársins 2024 Lífið Jólahaldið allt í rugl þegar frumsýning er annan í jólum Menning Fleiri fréttir Brostnar væntingar á Frostrósum Jólakötturinn hvæsti á tónleikagesti Bríet olli vonbrigðum Helgi Björns tryllti lýðinn á 40 ára afmæli Stúlkan með nálina: Hver gerir svona kvikmynd? Ástkona njósnarans skildi eftir sig sjóðheit bréf Efni sem veldur uppköstum, yfirliðum og eilífri æsku The Bikeriders: Hvenær komum við í flugeldaverksmiðjuna!? Sjá meira
Verk eftir Beethoven, Skrjabín og Schubert. Sinfóníuhljómsveit Íslands lék í Eldborg í Hörpu. Fimmtudagur 8. október. Einleikari: Víkingur Heiðar Ólafsson. Stjórnandi: Eivind Aadland. Einu sinni sagði illgjarn tónlistargagnrýnandi þetta: „Lífið er stutt og listin löng, það á sérstaklega við um Brahms-sinfóníu.“ Með þessu var hann að meina að hin tiltekna sinfónía væri svo löng að hún dræpi mann úr leiðindum. Kannski væri hægt að segja eitthvað svipað um níundu sinfóníu Schuberts, sem flutt var á tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands á fimmtudagskvöldið. Hún tekur hátt í klukkutíma í flutningi, og er lengri en nokkur sinfónía eftir Brahms. En sinfónían var alls ekki leiðinleg. Hinn norski Eivind Aadland hélt um stjórntaumana og túlkun hans einkenndist af látleysi og einfaldleika. Tónlistin fékk að flæða áreynslulaust. Fyrsti kaflinn þróaðist eðlilega, frá dulúðugu upphafinu yfir í tignarlegan lokapartinn. Hröðu kaflarnir voru líka skemmtilega snarpir og líflegir. Hægur annar þátturinn var jafnframt afar fallegur. Þar má segja að sé hjarta sinfóníunnar. Kaflinn hefst á grípandi stefi en síðan tekur við eins konar viðlag sem er endurtekið ótal sinnum. Nú geta svo margar endurtekningar auðveldlega orðið óþolandi, en ekki hér. Flutningurinn var einfaldlega of ferskur og fjörlegur. Tæknilega séð var leikur hljómsveitarinnar vandaður. Hann var að vísu örlítið ósamtaka af og til, en ekki þannig að það væri óþægilegt. Einstaka hnökrar eru jú eðlilegir í lifandi flutningi. Aðalatriðið var að spilamennskan var fókuseruð, rétta andrúmsloftið var sífellt til staðar. Fyrir bragðið tapaði maður aldrei athyglinni. Þegar svo löng sinfónía er annars vegar, þá telst það þrekvirki. Auk Schuberts var Coriolan-forleikurinn eftir Beethoven á dagskránni. Líka píanókonsertinn eftir Skrjabín. Um forleikinn þarf ekki að hafa mörg orð. Hann hljómaði ágætlega! Konsert Skrjabíns taldist til meiri tíðinda, enda hefur hann aldrei verið fluttur á tónleikum hér á landi áður. Um þessar mundir eru 100 ár síðan Skrjabín lést, og það er kominn tími til að þessi mikli snillingur fái veglegan sess í tónleikalífinu. Rétt eins og í tilfelli Beethovens, þá má skipta tónlist Skrjabíns í mismunandi tímabil. Fyrra tímabilið einkenndist af síðrómantískum anda. Tónmálið var í hefðbundnum dúr og moll, stemningin full af myrkum ástríðum. En um þrítugt fékk Skrjabín áhuga á dulspeki. Tónlist hans fór þá að vera vettvangur fyrir alls konar fantasíur sem ekki voru af þessum heimi. Músíkin breyttist, hljómarnir urðu annarlegir, laglínurnar spúkí. Píanókonsertinn sem hér var spilaður tilheyrir fyrra tímabilinu í lífi Skrjabíns. Víkingur Heiðar Ólafsson var einleikarinn og túlkun hans var ákaflega sannfærandi. Hún var dreymandi, en líka ofsafengin, þrungin tilfinningum og það var í henni dökk undiralda. Hinn lýríski rauði þráður slitnaði aldrei. Þetta er ekki auðveld tónsmíð, tæknikröfurnar eru umtalsverðar, en Víkingur hafði ekkert fyrir þeim. Útkoman var mögnuð. Aukalögin voru tvö, eftir Rameau og Brahms. Víkingur tileinkaði þau fyrsta píanókennaranum sínum, Erlu Stefánsdóttur sem lést fyrir skömmu. Það var góð kona. Hún hefur greinilega kennt Víkingi vel á píanó.Niðurstaða: Níunda sinfónía Schuberts var hrífandi og píanókonsert Skrjabíns var unaður.
Menning Tónlistargagnrýni Mest lesið Eiga nú glöðustu hunda í heimi Lífið Steven og Guðný Ósk eru nýtt par Lífið Fræga fólkið streymdi á hápunkt ársins í Þjóðleikhúsinu Lífið Lést eftir að hafa fallið úr bíl á ferð Lífið Björn Ingi leikur í ofurhetjumynd Lífið Brúðkaup ársins 2024 Lífið Sjáðu Sandler snúa aftur sem Happy Gilmore í nýrri kitlu Lífið Jólagjafir íslenskra vinnustaða Lífið Bestu, stærstu, slökustu og verstu myndir ársins 2024 Lífið Jólahaldið allt í rugl þegar frumsýning er annan í jólum Menning Fleiri fréttir Brostnar væntingar á Frostrósum Jólakötturinn hvæsti á tónleikagesti Bríet olli vonbrigðum Helgi Björns tryllti lýðinn á 40 ára afmæli Stúlkan með nálina: Hver gerir svona kvikmynd? Ástkona njósnarans skildi eftir sig sjóðheit bréf Efni sem veldur uppköstum, yfirliðum og eilífri æsku The Bikeriders: Hvenær komum við í flugeldaverksmiðjuna!? Sjá meira