Innlent

Banaslys við Jökulsárlón: Bátnum var bakkað yfir konuna

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Frá Jökulsárlóni.
Frá Jökulsárlóni. vísir/valli
Rannsókn lögreglunnar á Suðurlandi á banaslysi við Jökulsárlón sem varð í lok ágúst er á lokastigi að sögn Þorgríms Óla Sigurðssonar, aðstoðaryfirlögregluþjóns. Kanadísk kona á sextugsaldri, Shelagh Denise Donovar, lést samstundis þegar hún varð undir hjólabát á planinu milli Jökulsárlóns og kaffihússins sem þar stendur.

Ekki er hægt að ljúka rannsókn fyrr en krufningarskýrslan í málinu liggur fyrir en senda þurfti niðurstöður krufningar til útlanda þar sem enginn réttarlæknir starfar á Íslandi.

„Krufningarskýrslan er ókomin en við vonumst til að það fari nú að styttast í hana. Vonandi kemur hún í þessum mánuði án þess að það sé þó nokkuð hægt að fullyrða um það,“ segir Þorgrímur Óli.

Búið er að taka skýrslur af öllum þeim sem tengjast málinu. Um tíu manns er að ræða, en þar er á meðal voru eiginmaður og sonur konunnar sem voru með henni hér á landi.

Rannsókn beinist að því að upplýsa af hverju bakkað var yfir konuna

„Það liggur alveg fyrir hvað gerðist og svo þegar rannsókn lýkur verður málið sent til ríkissaksóknara sem ákveður framhaldið.“

Aðspurður hver tildrög slyssins hafi verið segir Þorgrímur að bátnum hafi verið bakkað yfir konuna þegar fara átti með bátinn út á lónið. Rannsókn lögreglu hefur meðal annars miðað að því að upplýsa af hverju bakkað var yfir konuna en Þorgrímur Óli segist ekki geta tjáð sig um hvaða svör lögregla hafi fengið við því.

Atvikið er rannsakað sem slys.

„Við skoðum alla þætti málsins og hvort að það er um eitthvað saknæmt að ræða, eins og er oft í slysum, það mun rannsóknin bara leiða í ljós. Við erum ekki komnir á það stig að geta sagt neitt til um það en í sakamálalögum segir að lögreglu sé skylt að rannsaka slys óháð því hvort um sé að ræða saknæmt athæfi eða ekki.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×