Innlent

Páll svarar kallinu og aðstoðar flóttafólk í Grikklandi

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Páll starfar í flóttamannabúðum norska Rauða krossins í Idomeni, smábæ við landamæri Makedóníu.
Páll starfar í flóttamannabúðum norska Rauða krossins í Idomeni, smábæ við landamæri Makedóníu.
Páll Biering, dósent í geðhjúkrun við Háskóla Íslands, er nú í sex vikna sendiför í Grikklandi á vegum Rauða krossins á Íslandi. Er þetta í fyrsta sinn sem Rauði krossinn á Íslandi sendir sendifulltrúa til Grikklands og í fyrsta sinn síðan stríð geisaði á Balkanskaga sem sendifulltrúi er sendur til lands innan Evrópu. Er þar með verið að svara kalli Alþjóðasambands landsfélaga Rauða krossins og Rauða hálfmánans (IFRC) til að bregðast við neyðarástandi vegna mikils straums flóttafólks sem leitar að alþjóðlegri vernd í Evrópu um þessar mundir. Svo segir í tilkynningu frá Rauða krossinum.

Páll starfar í flóttamannabúðum norska Rauða krossins í Idomeni, smábæ við landamæri Makedóníu. Helstu verkefni Páls verður að veita flóttafólki sem fer um búðirnar sálfélagslegan stuðning. Slíkur stuðningur getur verið ómetanlegur fyrir fólk sem glímir við mikla streitu í kjölfar alvarlegra áfalla.

Auk þess er honum ætlað að þjálfa sjálfboðaliða gríska Rauða krossins í að veita sálfélagslegan stuðning. Páll hóf störf 20. október og kemur til með að starfa við flóttamannabúðirnar til 6. desember. Mikið álag hefur verið á starfsfólki og sjálfboðaliðum Rauða krossins við landamæri Grikklands og Makedóníu á undanförnum vikum þar sem þúsundir flóttamanna hafa fengið aðhlynningu og neyðargögn.

Páll hefur áður unnið fyrir Alþjóðaráð Rauða krossins (ICRC) í Nígeríu og Djibouti. Í Djibouti fólust verkefni Páls í að veita sendifulltrúum og starfsfólki ICRC í Jemen sálrænan stuðning, að meta þörf þeirra fyrir sálfélagslegan stuðning og setja fram tillögur um eflingu hans. Páll gegndi svipuðum störfum í Nígeríu en þar beindust þau aðallega að starfsfólki og sjálfboðaliðum nígeríska Rauða krossins. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×