Franska stöðin BFM hefur eftir heimildarmanni innan lögreglunnar að franskur ríkisborgari, sem tók Volkswagen Polo á leigu og sást fyrir utan tónleikastaðinn Bataclan á föstudagskvöldið, sé ekki á meðal hinna sjö látnu árásarmanna eða í hópi þeirra sem hafa verið handteknir í Belgíu um helgina í tengslum við málið.
BFM greinir frá því að þrír menn hafi verið stöðvaðir af lögreglu á landamærum Frakklands og Belgíu á laugardagskvöldinu. Nöfn þeirra voru hins vegar ekki á lista yfir eftirlýsta og var þeim því heimilað að halda för sinni áfram. Þar segir að þeir hafi mögulega lagt leið sína til Molenbeek, úthverfis belgísku höfuðborgarinnar, þar sem alls átta manns hafa verið handteknir um helgina, þar af fimm í morgun.
Ekki sé ljóst hvort maðurinn hafi átt beinan þátt í árásunum eða verið vitorðsmaður. Hann hafi þó ekki verið handtekinn.
Saksóknari í Belgíu hefur nú staðfest að tveir árásarmannanna hafi verið Frakkar, búsettir í Brussel. Lögregla í Belgíu hefur gert húsleit á nokkrum stöðum í hverfinu Molenbeek, og handtekið átta.
#BREAKING Two attackers killed in Paris were Frenchmen who lived in Brussels: Belgian prosecutor
— Agence France-Presse (@AFP) November 15, 2015