Innlent

Sjaldan snjóað jafn mikið á höfuðborgarsvæðinu

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Aðeins fimmtán sinnum frá árinu 1949 hefur mælst meiri snjókoma á einum sólahring.
Aðeins fimmtán sinnum frá árinu 1949 hefur mælst meiri snjókoma á einum sólahring. Vísir/Pjetur

Það snjóaði gríðarlega á höfuðborgarsvæðinu í nótt en aðeins fimmtán sinnum frá árinu 1949 hefur mælst meiri snjókoma á einum sólahring. Snjódýpt í Reykjavík mældist í morgun 32 sentimetrar.

Er það mesta snjódýpt í Reykjavík í nóvember síðan 1979 og sú fjórða mesta í Reykjavík frá stofnun Veðurstofu Íslands samkvæmt Sigurði Þór Guðjónssyni veðursagnfræðingi.

Upp úr ellefu í gærkvöldi tók að snjóa í borginni en samkvæmt upplýsingum frá Birtu Líf Kristinsdóttir, vakthafandi veðurfræðingi á Veðurstofu Íslands, snjóaði nær linnulaust til klukkan sex í morgun.

Ekki gert var ráð fyrir svo mikilli ofankomu en síðdegis í gær var þó ljóst að nokkuð myndi snjóa um nóttina. Ástæðan fyrir að það snjóaði svo mikið og svo lengi var sú að éljabakkinn færðist mjög hægt yfir höfuðborgarsvæðið.

Að sögn Birtu snjóaði mest á höfuðborgarsvæðinu sé litið til alls landsins en næst mesta snjódýptin mældist á Hólmavík, 24 sentimetrar.

Snjómokstursmenn hafa staðið í ströngu við að moka götur en klukkan fjögur í nótt voru allar snjómoksturvélar ræstar út.

Höfuðborgarbúum sem er illa við snjóinn geta þó huggað sig við það að ekki er útlit fyrir viðlíka snjókomu næstu dagana.

„Það eru einhverjar líkur á éljum en ekkert í líkingu við það sem var í gærkvöldi og í nótt,“ segir Birta. „En það þarf líklega ekkert að segja Íslendingum það að spár geta breyst.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×