Gunjack er skotleikur sem gerist í EVE heiminum.
„Markmið okkar með Gunjack var að sýna fram á það besta sem Gear VR tæknin hefur upp á að bjóða. Við þróun leiksins reyndum við að nýta þessa nýju tækni til hins ýtrasta þannig að spilari leiksins fari í annan heim þegar hann setur á sig Gear VR búnaðinn, og við vonum að þeir sem spili Gunjack hafi jafn gaman af því að spila leikinn og við höfðum að því að gera hann,“ segir Jean-Charles Gaudechon, framleiðslustjóri Gunjack, í tilkynningu frá CCP.
Hilmar Veigar Pétursson, framkvæmdastjóri fyrirtækisins segir útgáfuna marka ákveðin tímamót í sögu CCP.
„Sýndarveruleiki mun skipa stóran sess í afþreyingariðnaði framtíðarinnar og með útgáfu Gunjack höfum við nú formlega hafið útgáfustarfsemi okkar á þessu sviði.”
Gunjack byrjaði sem prufuverkefni og leit fyrst dagsins ljós á EVE Fanfest hátíðinni í Reykjavík í mars síðastliðnum undir heitinu Project Nemesis. Í kjölfar góðra viðbragða gesta og blaðamanna á Fanfest var ákveðið að halda áfram með þróun verkefnisins og var formlega tilkynnt um útgáfu þess sem tölvuleiks á Gamescom ráðstefnunni í Köln í sumar.