Körfubolti

Dirk fékk að dansa yfir skrefaregluna í NBA-deildinni | Myndband

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dirk Nowitzki.
Dirk Nowitzki. Vísir/EPA
Allar reglur um stöðufót virðast fara út um veður og vind þegar kemur að þýsku körfuboltagoðsögninni Dirk Nowitzki.

Dirk Nowitzki er orðinn 37 ára gamall og hann er á sínu átjánda tímabili í NBA-deildinni þar sem hann hefur spilað allan sinn feril með Dallas Mavericks.

Nowitzki var með 16 stig, 10 fráköst og 4 stoðsendingar þegar Dallas Mavericks tapaði 100-96 á heimavelli í Texasslag á móti Houston Rockets á dögunum.

Það sem vakti þó einna mesta athygli úr þessum leik þegar Dirk Nowitzki fékk hreinlega að dansa með boltann í höndunum þegar James Harden var að reyna að dekka kappann.

James Harden er sautján sentímetrum lægri en Dirk og langt frá því að vera í hópi bestu varnarmanna NBA-deildarinnar. Hann mátti því ekki við því að Þjóðverjinn fengi að fara svona frjálslega með skrefaregluna.

James Harden hafði samt betur á endanum. hann skoraði fleiri stig (25) en Dirk Nowitzki og gaf líka fleiri stoðsendingar (9) í leiknum. Það sem skipti síðan aðalmáli er að James Harden og félagar í Houston Rockets unnu leikinn.

Dallas Mavericks hefur unnið 12 leiki af 21 í byrjun tímabilsins og er eins og er í fjórða sæti Vesturdeildarinnar. Dirk Nowitzki er að skora 17,5 stig í leik og hitta úr 50,2 prósent skota sinna sem eru aðeins hærri tölur en í fyrra.

Dansinn hans Dirk Nowitzki fór ekkert framhjá fólkinu á The Senior Basketball Analyst sem settu myndbrot með þessari löglegu en samt ólöglegu hreyfingu Dirk Nowitzki inn á Vine-síðu sína. Hún er hér fyrir neðan og þar er sjón sögu ríkari.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×