Flækjusaga Illuga: Blóðið í jörðinni við Panipat Illugi Jökulsson skrifar 6. desember 2015 11:00 Það búa svo margir á Indlandi að borgin Panipat telst bara vera smáborg, hún er raunar í 151sta sæti yfir indverskar borgir að mannfjölda. Samt búa þar þrjú hundruð þúsund manns, nærri jafn margir og Íslendingar allir. Þetta er lágreist borg sem upphaflega óx upp í kringum blómlegan teppaiðnað en þjónar einnig frjósömu landbúnaðarhéraði þar um kring. Afurðir eru flestar fluttar suður á bóginn til ferlíkisins Nýju Dehlí, höfuðborgar Indlands, ellefu milljón manna skrímslis sem er í hundrað kílómetra fjarlægð frá Panipat. Eina hundrað og tuttugu kílómetra í norðaustri ber hins Himalaja-fjöll við himin. Rætur fjallanna eru álíka langt frá Panipat og Hvolsvöllur er frá Reykjavík.Örlagaríkustu orrusturnar Og hví er ég að eyða tíma í að segja hér frá borginni Panipat? Jú, svo vill til að við þessa kyrrlátu borg, þar sem yfirleitt ber fátt til tíðinda, þar hafa verið háðar tvær af sögulegustu orrustum á Indlandi, gríðarlegir bardagar sem réðu málum á svæðinu í áratugi og aldir á eftir, en það er til marks um hve lítið við á Vesturlöndum vitum um sögu Indlands að í bókum sem við skrifum um „örlagaríkustu orrustur sögunnar“ þar er aldrei minnst orði á orrusturnar við Panipat. Sú fyrri var háð árið 1526. Þá hafði hreiðrað um sig í borginni fimmtán þúsund manna innrásarher norðan úr Mið-Asíu, hann laut stjórn manns sem yfirleitt er kallaður Babúr og var mongólskrar ættar, fæddur í hinum fagra Ferghana-dal sem nú tilheyrir Úsbekistan, Kyrgistan og Tadjikistan. Babúr taldi sig afkomanda hins mikla Tímúrs sem hafði lagt undir sig Mið-Asíu og Miðausturlönd laust fyrir aldamótin 1400, og hann var ráðinn í að feta í fótspor hans. Hann kom sér upp öflugum her en var þó að lokum hrakinn frá Mið-Asíu af bandalagi fénda sinna, og ákvað þá að leita fyrir sér suður á Indlandi. Indland skiptist þá í nokkur sjálfstæð smáríki – ef smáríki er þá rétta orðið um landflæmi sem flest voru bæði viðáttumeiri og mun fjölmennari en stærstu ríki Evrópu, svo dæmi sé tekið – en í Indusdal og í norðurhluta Indlands, þar á meðal í Dehlí, hafði ríki Lodí-ættarinnar verið við lýði í sjötíu ár. Lodíarnir röktu ættir sínar til Afganistan og voru múslimar. Babúr lagði nú allt undir þegar hann einsetti sér að knésetja Lodí-ríkið með einu hnitmiðuðu höggi. Hann leiddi her sinn yfir afgönsku fjöllin og til Panipat og beið þar eftir gagnárás Ibrahíms Lodí soldáns sem þótti djarfur herforingi en kannski helstil óþolinmóður.Fílar og fallbyssur Og Lodí mætti frá Dehlí til Panipat þann 21. apríl 1526 og hafði þrisvar sinnum fjölmennari her en Babúr frá Fergana, og skal sér í lagi vakin athygli á að Lodí tefldi fram allt að þúsund stríðsfílum, rétt eins og tíðkast hafði í indverskum herjum allt frá því Indverjar vörðust Alexander mikla nærri tvö þúsund árum áður. En Babúr átti heldur betur svar við fílunum, því hann beitti stórskotaliði og byssuskyttum með framhlaðninga í meiri og markvissari mæli en nokkurn tíma hafði áður sést í veröldinni. Þarna í upphafi sextándu aldar hafði Evrópa nefnilega alls ekki neina frumkvæðni eða forystu í hernaðartækni; ekkert Evrópuríki átti um þær mundir byssusveitir sem hefðu staðist skyttum Babúrs snúning. Og þá ekki lengur Lodí eða fílar hans, og fljótlega eftir að orrustan hófst við Panipat brast flótti í lið Dehlí-manna og riddaralið Babúrs rak svo flóttann og brytjaði niður skelfingu lostna dátana á flóttanum. Meðal þeirra er féllu var Ibrahím Lodí sjálfur og var nú ættarríkið á svipstundu úr sögunni. Með þessari einu orrustu við Panipat gerbreyttist saga svæðisins. Babúr varð fyrsti keisari í veldi Mongóla sem náði brátt yfir mestallt hið mikla flæmi Indlands og kallast í munni fólks Mógúla-ríkið. Eru af því stórfenglegar sögur og var veldi Mógúla áreiðanlega hið öflugasta í sögunni á sautjándu öld og hefðu öflugustu Evrópuríkin ekki átt séns í stórskotalið Mógúla-keisaranna þegar her þeirra var öflugastur. Á átjándu öldinni fór hins vegar allt að breytast. Æ fleiri demantar söfnuðust í kórónur Mógúlanna en þróttur og frumkvæði í ríkinu fóru minnkandi. Stöðnunar fór að verða vart. Á sama tíma óx þróttur Evrópuríkja í kjölfar aukinna siglinga og uppgangs kapítalismans sem sleppti margvíslegum kvikindum lausum, bæði til góðs og ills. Alla öldina sljákkaði í hinum múslimsku Mógúlum en nýtt veldi hindúa teygði sig æ lengra út frá upphafsstöðvum í Maratha á miðju Indlandi. Svo var komið um miðja átjándu öld að keisarar Mógúla í Dehlí voru ekki annað en demantsskreyttar silkihúfur en leiðtogar Maratha fóru í raun með stjórnina. Framgang sinn áttu þeir að hluta til að þakka andstöðunni við útlendinga sem voru farnir að krækja í æ fleiri spildur við sjóinn og langt fram á öldinni voru Maratha-menn engir eftirbátar Englendinga í sjóhernaði.Allt í handaskolum En einmitt þegar segja má að Indverjar hafi þurft mest á öflugu og samstæðu Maratha-veldi að halda til að sporna gegn ásælni útlendinga, þá fór allt í handaskolum. Eins og ég sagði frá í flækjusögu fyrir hálfum mánuði reis nánast upp úr þurru nýtt herskátt stríðsveldi í Afganistan upp úr miðri átjándu öld undir forystu Ahmad Shah Durrani og 14. janúar 1761 stefndi hann herjum sínum til úrslitaorrustu gegn Maratha-ríkinu, og líkt og fyrir 235 árum var enn barist við Panipat norður af Dehlí. Og þetta varð engin smáræðis orrusta. Kannski hafði annar eins mannfjöldi aldrei áður tekist á á einum degi í sögunni. Hátt í tvö hundruð þúsund börðust daglangt á frjósömu flatlendinu kringum Panipat. Foringi Maratha-manna hafði verið tregur til að leggja til orrustu en menn hans grátbáðu um að fá að berjast. Hinn afganski her Durranis hafði rofið birgðaleiðir Maratha-manna mánuði fyrr og þeir voru að deyja úr hungri; þá töldu þeir skárra að berjast og verða vopndauðir. Og vissulega varð ótrúlega mörgum þeirra að ósk sinni. Eftir hræðilega stórskotahríð og hjaðningavíg fótgönguliðs réði riddaralið Afgana að lokum úrslitum og flótti brast á lið Maratha-manna. Allt að áttatíu þúsund féllu í orrustunni sjálfri en eftir að henni lauk tóku við ægileg fjöldamorð. Stríðsfangar af trú hindúa sem höfðu gefist upp voru hlekkjaðir og síðan afhausaðir í tugþúsundatali. Margir þeirra fengu vatnssopa og lúku af hrísgrjónum áður en þeim var slátrað, líklega átti það að vera til merkis um miskunnsemi. Hermenn Afgana gengu svo berserksgang inni í borginni Panipat, börn allt niður í fjórtán ára voru hálshöggvin fyrir framan foreldra sína, konum var nauðgað í þúsundatali og ótal margar steyptu sér í brunna eða gengu með öðrum hætti fyrir ætternisstapa til að sleppa við þau örlög. Breskur blaðamaður sem horfði upp á blóðbaðið giskaði á að rúmlega sjötíu þúsund manns hefðu týnt lífi í fjöldamorðum eftir orrustuna, það er eins og nálega hver einasti kjaftur á troðfullum fótboltavellinum Old Trafford. Og tuttugu og tvö þúsund konur og börn voru svo reidd í þrældóm til Afganistan í bambusbúrum, og þarf vart að orðlengja að á leiðinni þangað norður í fjöllin hafa ótalmargir hinna verðandi þræla látið lífið. Ahman Shah Durrani sem orti fögur ástarljóð í frístundum lét sér þetta vel líka. Og hér vitum við fátt um þennan hrylling.Lexía Breta og Rússa Á endanum þornaði blóðið í moldinni við Panipat eða seig niður í svörðinn. Þessi seinni orrusta varð afdrifarík ekki síður en sú fyrri. Hið öfluga ríki Durranis í fjöllunum í Afganistan varð að vísu ekki langlíft og hörfaði fljótlega frá Indlandi. En Maratha-ríkinu hafði verið greitt þungt högg og þaðan í frá var ekkert ríki á Indlandi þess umkomið að sporna gegn innrásum Breta sem færðu sig æ meira upp á skaftið uns þeir réðu öllu Indlandi um miðja nítjándu öld. En Bretar þóttust líka hafa sína lexíu að læra af orrustunum við Panipat. Þótt þeir næðu Indlandi gleymdu þeir ekki sögunni – innrásarherjunum tveim sem komið höfðu norðan úr afgönsku fjöllunum og sótt í átt til Dehlí og varnarlínan við Panipat hafði brugðist í bæði skiptin. Og ekki síst þess vegna gátu Bretar ekki látið Afganistan í friði á nítjándu öld, þaðan töldu þeir ills von á hverri stundu. Og Rússar, sem brutu undir sig Mið-Asíu á nítjándu öld, höfðu líka tekið eftir því að um fjalladalina í Afganistan var leið suður til Indlands. Flækjusaga Menning Mest lesið Dagbók móður: „Munum við fara fjárhagslega á hausinn?“ Áskorun Andrew Garfield á Íslandi Lífið Katrín Tanja trúlofuð Lífið Fræga fólkið streymdi á hápunkt ársins í Þjóðleikhúsinu Lífið Gefa bretti af flugeldum að verðmæti 300.000 króna Lífið samstarf Steven og Guðný Ósk eru nýtt par Lífið Brúðkaup ársins 2024 Lífið Partyland í Holtagörðum hefur allt fyrir gamlárspartýið Lífið samstarf Eiga nú glöðustu hunda í heimi Lífið Jólagjafir íslenskra vinnustaða Lífið Fleiri fréttir Andrew Garfield á Íslandi Katrín Tanja trúlofuð Steven og Guðný Ósk eru nýtt par Fræga fólkið streymdi á hápunkt ársins í Þjóðleikhúsinu Sjáðu Sandler snúa aftur sem Happy Gilmore í nýrri kitlu Björn Ingi leikur í ofurhetjumynd Eiga nú glöðustu hunda í heimi Lést eftir að hafa fallið úr bíl á ferð Brúðkaup ársins 2024 Bestu, stærstu, slökustu og verstu myndir ársins 2024 Króli trúlofaður Jólagjafir íslenskra vinnustaða Jólagjöf ársins er stóllinn sem getur allt nema flogið Besta jólagjöfin að sjá bata foreldranna Smakkaði skötu í fyrsta sinn undir eftirliti sérfræðinga Guðmundur „ofpeppaðist“ og reif sig á kassann Hafi ekki tekið þátt í herferð gegn Lively Einn frægasti krókódíll í heimi allur Myndaveisla: Rauð jól hjá Jökli í Kaleo „Í stórgróða“ að eyða jólunum á Tene Ellen Margrét og Arnmundur orðin hjón Kolféll fyrir Amsterdam og hollenskum strák Límdi fyrir munninn á öllum við borðið „Fyrstu jólin án hans og sætið hans verður tómt“ Stjörnulífið: Bikiníjól og jól í Japan Frægir fundu ástina 2024 „Að horfa upp á ofbeldi er jafn mikið ofbeldi og að verða fyrir því“ Netverjar koma „bomsum“ Ingu á Bessastöðum til varnar Dóttir Elínar Mettu og Sigurðar komin með nafn 107 ára gömul og dansar eins og unglamb Sjá meira
Það búa svo margir á Indlandi að borgin Panipat telst bara vera smáborg, hún er raunar í 151sta sæti yfir indverskar borgir að mannfjölda. Samt búa þar þrjú hundruð þúsund manns, nærri jafn margir og Íslendingar allir. Þetta er lágreist borg sem upphaflega óx upp í kringum blómlegan teppaiðnað en þjónar einnig frjósömu landbúnaðarhéraði þar um kring. Afurðir eru flestar fluttar suður á bóginn til ferlíkisins Nýju Dehlí, höfuðborgar Indlands, ellefu milljón manna skrímslis sem er í hundrað kílómetra fjarlægð frá Panipat. Eina hundrað og tuttugu kílómetra í norðaustri ber hins Himalaja-fjöll við himin. Rætur fjallanna eru álíka langt frá Panipat og Hvolsvöllur er frá Reykjavík.Örlagaríkustu orrusturnar Og hví er ég að eyða tíma í að segja hér frá borginni Panipat? Jú, svo vill til að við þessa kyrrlátu borg, þar sem yfirleitt ber fátt til tíðinda, þar hafa verið háðar tvær af sögulegustu orrustum á Indlandi, gríðarlegir bardagar sem réðu málum á svæðinu í áratugi og aldir á eftir, en það er til marks um hve lítið við á Vesturlöndum vitum um sögu Indlands að í bókum sem við skrifum um „örlagaríkustu orrustur sögunnar“ þar er aldrei minnst orði á orrusturnar við Panipat. Sú fyrri var háð árið 1526. Þá hafði hreiðrað um sig í borginni fimmtán þúsund manna innrásarher norðan úr Mið-Asíu, hann laut stjórn manns sem yfirleitt er kallaður Babúr og var mongólskrar ættar, fæddur í hinum fagra Ferghana-dal sem nú tilheyrir Úsbekistan, Kyrgistan og Tadjikistan. Babúr taldi sig afkomanda hins mikla Tímúrs sem hafði lagt undir sig Mið-Asíu og Miðausturlönd laust fyrir aldamótin 1400, og hann var ráðinn í að feta í fótspor hans. Hann kom sér upp öflugum her en var þó að lokum hrakinn frá Mið-Asíu af bandalagi fénda sinna, og ákvað þá að leita fyrir sér suður á Indlandi. Indland skiptist þá í nokkur sjálfstæð smáríki – ef smáríki er þá rétta orðið um landflæmi sem flest voru bæði viðáttumeiri og mun fjölmennari en stærstu ríki Evrópu, svo dæmi sé tekið – en í Indusdal og í norðurhluta Indlands, þar á meðal í Dehlí, hafði ríki Lodí-ættarinnar verið við lýði í sjötíu ár. Lodíarnir röktu ættir sínar til Afganistan og voru múslimar. Babúr lagði nú allt undir þegar hann einsetti sér að knésetja Lodí-ríkið með einu hnitmiðuðu höggi. Hann leiddi her sinn yfir afgönsku fjöllin og til Panipat og beið þar eftir gagnárás Ibrahíms Lodí soldáns sem þótti djarfur herforingi en kannski helstil óþolinmóður.Fílar og fallbyssur Og Lodí mætti frá Dehlí til Panipat þann 21. apríl 1526 og hafði þrisvar sinnum fjölmennari her en Babúr frá Fergana, og skal sér í lagi vakin athygli á að Lodí tefldi fram allt að þúsund stríðsfílum, rétt eins og tíðkast hafði í indverskum herjum allt frá því Indverjar vörðust Alexander mikla nærri tvö þúsund árum áður. En Babúr átti heldur betur svar við fílunum, því hann beitti stórskotaliði og byssuskyttum með framhlaðninga í meiri og markvissari mæli en nokkurn tíma hafði áður sést í veröldinni. Þarna í upphafi sextándu aldar hafði Evrópa nefnilega alls ekki neina frumkvæðni eða forystu í hernaðartækni; ekkert Evrópuríki átti um þær mundir byssusveitir sem hefðu staðist skyttum Babúrs snúning. Og þá ekki lengur Lodí eða fílar hans, og fljótlega eftir að orrustan hófst við Panipat brast flótti í lið Dehlí-manna og riddaralið Babúrs rak svo flóttann og brytjaði niður skelfingu lostna dátana á flóttanum. Meðal þeirra er féllu var Ibrahím Lodí sjálfur og var nú ættarríkið á svipstundu úr sögunni. Með þessari einu orrustu við Panipat gerbreyttist saga svæðisins. Babúr varð fyrsti keisari í veldi Mongóla sem náði brátt yfir mestallt hið mikla flæmi Indlands og kallast í munni fólks Mógúla-ríkið. Eru af því stórfenglegar sögur og var veldi Mógúla áreiðanlega hið öflugasta í sögunni á sautjándu öld og hefðu öflugustu Evrópuríkin ekki átt séns í stórskotalið Mógúla-keisaranna þegar her þeirra var öflugastur. Á átjándu öldinni fór hins vegar allt að breytast. Æ fleiri demantar söfnuðust í kórónur Mógúlanna en þróttur og frumkvæði í ríkinu fóru minnkandi. Stöðnunar fór að verða vart. Á sama tíma óx þróttur Evrópuríkja í kjölfar aukinna siglinga og uppgangs kapítalismans sem sleppti margvíslegum kvikindum lausum, bæði til góðs og ills. Alla öldina sljákkaði í hinum múslimsku Mógúlum en nýtt veldi hindúa teygði sig æ lengra út frá upphafsstöðvum í Maratha á miðju Indlandi. Svo var komið um miðja átjándu öld að keisarar Mógúla í Dehlí voru ekki annað en demantsskreyttar silkihúfur en leiðtogar Maratha fóru í raun með stjórnina. Framgang sinn áttu þeir að hluta til að þakka andstöðunni við útlendinga sem voru farnir að krækja í æ fleiri spildur við sjóinn og langt fram á öldinni voru Maratha-menn engir eftirbátar Englendinga í sjóhernaði.Allt í handaskolum En einmitt þegar segja má að Indverjar hafi þurft mest á öflugu og samstæðu Maratha-veldi að halda til að sporna gegn ásælni útlendinga, þá fór allt í handaskolum. Eins og ég sagði frá í flækjusögu fyrir hálfum mánuði reis nánast upp úr þurru nýtt herskátt stríðsveldi í Afganistan upp úr miðri átjándu öld undir forystu Ahmad Shah Durrani og 14. janúar 1761 stefndi hann herjum sínum til úrslitaorrustu gegn Maratha-ríkinu, og líkt og fyrir 235 árum var enn barist við Panipat norður af Dehlí. Og þetta varð engin smáræðis orrusta. Kannski hafði annar eins mannfjöldi aldrei áður tekist á á einum degi í sögunni. Hátt í tvö hundruð þúsund börðust daglangt á frjósömu flatlendinu kringum Panipat. Foringi Maratha-manna hafði verið tregur til að leggja til orrustu en menn hans grátbáðu um að fá að berjast. Hinn afganski her Durranis hafði rofið birgðaleiðir Maratha-manna mánuði fyrr og þeir voru að deyja úr hungri; þá töldu þeir skárra að berjast og verða vopndauðir. Og vissulega varð ótrúlega mörgum þeirra að ósk sinni. Eftir hræðilega stórskotahríð og hjaðningavíg fótgönguliðs réði riddaralið Afgana að lokum úrslitum og flótti brast á lið Maratha-manna. Allt að áttatíu þúsund féllu í orrustunni sjálfri en eftir að henni lauk tóku við ægileg fjöldamorð. Stríðsfangar af trú hindúa sem höfðu gefist upp voru hlekkjaðir og síðan afhausaðir í tugþúsundatali. Margir þeirra fengu vatnssopa og lúku af hrísgrjónum áður en þeim var slátrað, líklega átti það að vera til merkis um miskunnsemi. Hermenn Afgana gengu svo berserksgang inni í borginni Panipat, börn allt niður í fjórtán ára voru hálshöggvin fyrir framan foreldra sína, konum var nauðgað í þúsundatali og ótal margar steyptu sér í brunna eða gengu með öðrum hætti fyrir ætternisstapa til að sleppa við þau örlög. Breskur blaðamaður sem horfði upp á blóðbaðið giskaði á að rúmlega sjötíu þúsund manns hefðu týnt lífi í fjöldamorðum eftir orrustuna, það er eins og nálega hver einasti kjaftur á troðfullum fótboltavellinum Old Trafford. Og tuttugu og tvö þúsund konur og börn voru svo reidd í þrældóm til Afganistan í bambusbúrum, og þarf vart að orðlengja að á leiðinni þangað norður í fjöllin hafa ótalmargir hinna verðandi þræla látið lífið. Ahman Shah Durrani sem orti fögur ástarljóð í frístundum lét sér þetta vel líka. Og hér vitum við fátt um þennan hrylling.Lexía Breta og Rússa Á endanum þornaði blóðið í moldinni við Panipat eða seig niður í svörðinn. Þessi seinni orrusta varð afdrifarík ekki síður en sú fyrri. Hið öfluga ríki Durranis í fjöllunum í Afganistan varð að vísu ekki langlíft og hörfaði fljótlega frá Indlandi. En Maratha-ríkinu hafði verið greitt þungt högg og þaðan í frá var ekkert ríki á Indlandi þess umkomið að sporna gegn innrásum Breta sem færðu sig æ meira upp á skaftið uns þeir réðu öllu Indlandi um miðja nítjándu öld. En Bretar þóttust líka hafa sína lexíu að læra af orrustunum við Panipat. Þótt þeir næðu Indlandi gleymdu þeir ekki sögunni – innrásarherjunum tveim sem komið höfðu norðan úr afgönsku fjöllunum og sótt í átt til Dehlí og varnarlínan við Panipat hafði brugðist í bæði skiptin. Og ekki síst þess vegna gátu Bretar ekki látið Afganistan í friði á nítjándu öld, þaðan töldu þeir ills von á hverri stundu. Og Rússar, sem brutu undir sig Mið-Asíu á nítjándu öld, höfðu líka tekið eftir því að um fjalladalina í Afganistan var leið suður til Indlands.
Flækjusaga Menning Mest lesið Dagbók móður: „Munum við fara fjárhagslega á hausinn?“ Áskorun Andrew Garfield á Íslandi Lífið Katrín Tanja trúlofuð Lífið Fræga fólkið streymdi á hápunkt ársins í Þjóðleikhúsinu Lífið Gefa bretti af flugeldum að verðmæti 300.000 króna Lífið samstarf Steven og Guðný Ósk eru nýtt par Lífið Brúðkaup ársins 2024 Lífið Partyland í Holtagörðum hefur allt fyrir gamlárspartýið Lífið samstarf Eiga nú glöðustu hunda í heimi Lífið Jólagjafir íslenskra vinnustaða Lífið Fleiri fréttir Andrew Garfield á Íslandi Katrín Tanja trúlofuð Steven og Guðný Ósk eru nýtt par Fræga fólkið streymdi á hápunkt ársins í Þjóðleikhúsinu Sjáðu Sandler snúa aftur sem Happy Gilmore í nýrri kitlu Björn Ingi leikur í ofurhetjumynd Eiga nú glöðustu hunda í heimi Lést eftir að hafa fallið úr bíl á ferð Brúðkaup ársins 2024 Bestu, stærstu, slökustu og verstu myndir ársins 2024 Króli trúlofaður Jólagjafir íslenskra vinnustaða Jólagjöf ársins er stóllinn sem getur allt nema flogið Besta jólagjöfin að sjá bata foreldranna Smakkaði skötu í fyrsta sinn undir eftirliti sérfræðinga Guðmundur „ofpeppaðist“ og reif sig á kassann Hafi ekki tekið þátt í herferð gegn Lively Einn frægasti krókódíll í heimi allur Myndaveisla: Rauð jól hjá Jökli í Kaleo „Í stórgróða“ að eyða jólunum á Tene Ellen Margrét og Arnmundur orðin hjón Kolféll fyrir Amsterdam og hollenskum strák Límdi fyrir munninn á öllum við borðið „Fyrstu jólin án hans og sætið hans verður tómt“ Stjörnulífið: Bikiníjól og jól í Japan Frægir fundu ástina 2024 „Að horfa upp á ofbeldi er jafn mikið ofbeldi og að verða fyrir því“ Netverjar koma „bomsum“ Ingu á Bessastöðum til varnar Dóttir Elínar Mettu og Sigurðar komin með nafn 107 ára gömul og dansar eins og unglamb Sjá meira