Áskorunarsíðu henni til stuðnings var ýtt úr vör á Facebook 1. desember og segist Halla vera djúpt snortin yfir þeim skilaboðum sem henni hafa borist síðustu daga.
„Það er ekki auðvelt að svara slíkri áskorun svo ég hef ákveðið að gefa mér tíma í að hugsa og ræða við mína nánustu, áður en ég segi af eða á,” segir Halla í skilaboðum til vina og vandamanna sinna.
„Hver sem niðurstaðan verður, þá mun ég áfram brenna fyrir jafnrétti, sjálfbærni og uppbyggingu manneskjulegs samfélags,” segir hún ennfremur.
Á síðunni Við skorum á Höllu Tómasdóttur í forsetaframboð 2016 segir: „„Við skorum á Höllu Tómasdóttur að gefa kost á sér í embætti forseta Íslands. Höllu fylgir bjartsýni og áræðni, hún er verðugur fulltrúi þjóðarinnar,“ Þar stendur einnig: „Halla hefur kraftinn, jákvæðnina og hlýjuna til að verða góður forseti. Við þurfum forseta sem fyllir okkur eldmóði og bjartsýni, forseta sem verður okkur samferða inn í framtíðina. [...] Með Höllu mun Ísland eignast hvetjandi og uppbyggilegan forseta sem í senn mun reynast góður samferðamaður og verðugur fulltrúi á alþjóðlegum vettvangi.“
Ekki náðist í Höllu við vinnslu þessarar fréttar.