Ljósmyndarar Fréttablaðsins og Vísis eru sjaldan langt undan þegar fréttaviðburðir eiga sér stað. Oft ná þeir að fanga augnablikið betur en orð fréttaskrifara fá lýst og er það ástæða þess að þeir eru alltaf á ferð og flugi, alla daga ársins. Hér má sjá brot af þeim myndum sem ljósmyndararnir tóku á árinu sem senn er á enda.

Sólmyrkvagleraugun umtöluðu
Gleðin skein svo sannarlega úr augum barnanna, sem fengu frá sólmyrkvagleraugu að gjöf frá Stjörnuskoðunarfélagi Seltjarnarness, til þess að berja þennan stórmerka atburð augum. Þrátt fyrir að gleraugun hafi verið ætluð börnunum, þá var þeim gert að skila þeim að notkun lokinni, þar sem reglur Reykjavíkurborgar og annarra sveitarfélaga á um að ekki megi afhenda börnum gjafir á skólatíma. Þrátt fyrir að hinir eldri hafi orðið nokkuð ósáttir við þessar reglur, létu börnin það lítið á sig fá. Deildarmyrkvinn var sá dimmasti á Íslandi frá árinu 1954.

Telati-fjölskyldan
Þessi mynd birtist af Telati-fjölskyldunni, hælisleitendum frá Albaníu, í Fréttablaðinu eftir að hún fékk synjun um hæli hér á landi. Fjölskyldan komst í fréttirnar því börnin þrjú fengu ekki skólavist hér þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir frá lögmanni þeirra. Daginn sem fréttin birtist höfðu skólastjórnendur samband við fjölskylduna og börnin fengu öll inni í skóla. Ótrúleg samstaða ríkti á Íslandi og rituðu um átta þúsund manns nafn sitt á undirskriftalista og kröfðust þess að þau fengju hæli á Íslandi.

Hinsegin dögum fagnað
Bjarni Snæbjörnsson og Frímann Sigurðsson prýddu forsíðu Fréttablaðsins, þar sem þeir sátu saman á regnbogalitum á Skólavörðustíg. Myndin var tekin í tilefni Hinsegin daga, sem náðu hámarki með Gleðigöngunni 8.ágúst, daginn sem myndin birtist. Myndin fékk mikla athygli á samfélagsmiðlum og vakti boðskapurinn mikla lukku, en yfirskrift myndarinnar var „Ástin er alls konar“.

Kallinn í kassanum
Eflaust muna flestir eftir Almari Atlasyni, sem nú er kenndur við kassa. Hann dvaldi í glerkassa í heila viku og fylgdist þjóðin spennt með lífi hans í gegnum netið.

Byltingarárið 2015
Free the nipple, eða frelsum geirvörtuna, var herferð sem var afar fyrirferðarmikil á samfélagsmiðlum. Með frelsun geirvörtunnar vöktu konur athygli á því misrétti sem þær verða. Þær fyrir afklámvæddu þannig brjóst og gengisfelldu hefndarklám, líkt og þær orðuðu það.

Passað upp á að reglum sé fylgt
Verkföll mörkuðu svo sannarlega árið 2015. Þúsundir lögðu niður störf og gætti áhrifa verkfallanna víða. Verkfallsverðir voru fengnir til að gæta þess að öllum reglum yrði fylgt.

Fjárkúgunarsystur
Systurnar Hlín Einarsdóttir og Malín Brand voru handteknar í júní fyrir að hafa reynt að kúga fé út úr Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni forsætisráðherra. Hér sést Malín er hún gekk út af lögreglustöðinni, nýkomin úr yfirheyrslu.
Málið vakti gríðarlega athygli en systurnar játuðu báðar aðild að því við yfirheyrslu hjá lögreglu. Rannsókn málsins lauk í nóvember og var það þá sent til ríkissaksóknara sem ákveður hvort ákært verði eða ekki.
Annar maður kærði svo systurnar fyrir fjárkúgun í kjölfar þess að fjárkúgun þeirra á hendur Sigmundi Davíð komst í hámæli. Maðurinn hafði greitt systrunum 700 þúsund krónur gegn því að vera ekki sakaður um að hafa nauðgað Hlín.

Sýknuð af fordæmalausri ákæru
Það voru fagnaðarfundir þegar Héraðsdómur Reykjavíkur sýknaði Ástu Kristínu Andrésdóttur hjúkrunarfræðing, og Landspítalann, af ákæru um manndráp af gáleysi vegna andláts sjúklings. Málið er fordæmalaust og í fyrsta skipti sem spítalinn eða starfsmaður hans eru ákærðir. Hjúkrunarfræðingar studdu þétt við bakið á Ástu, og fjölmenntu í dómsal þegar dómurinn var kveðinn upp.
Fleiri myndir eru að finna í albúminu hér fyrir neðan.