Þar vísar hann til þess að þegar Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra lagði til einföldun á virðisaukaskattskerfinu þá hélt hann inni undanþágu áætlunarferða hópferðabifreiða. Þetta varð þrátt fyrir að markmiðið hafi verið að einfalda virðisaukaskattskerfið og fækka undanþágum.

Umsvifamiklir bræður
Kynnisferðir eru stór aðili á markaðnum. Stærstu eigendur fyrirtækisins eru fyrirtæki í eigu bræðranna Benedikts og Einars Sveinssona. Sem kunnugt er er Benedikt faðir Bjarna fjármálaráðherra og þá Einar föðurbróðir hans. Eignarhaldsfélög bræðranna og fjölskyldna þeirra fara með meirihluta í félaginu. Þeir hafa um árabil verið mjög umsvifamiklir í íslensku efnahagslífi.Jóhannes Karl Sveinsson, lögmaður Hópbílaleigunnar, segir leiðina milli Keflavíkurflugvallar og Reykjavíkur hafa verið langstærsta bitann þegar útboð á öllum sérleyfisleiðunum fór fram 2005. Hópbílaleigan hefur farið fram á bætur vegna ólögmætra aðgerða Vegagerðarinnar í útboði á sérleyfisakstri milli Keflavíkurflugvallar og Reykjavíkur. Áður hefur ríkið greitt fyrirtækinu 250 milljónir í bætur vegna sama útboðs. Hópbílaleigan var með lægsta tilboðið í útboðinu, sem haldið var árið 2005, en Vegagerðin samdi hins vegar við Kynnisferðir um aksturinn. Þá var fyrirtækið í eigu FL Group.
„Umbjóðandi minn var með lægsta boðið í þá leið. Honum bauðst hins vegar að fá ferðir á Suðurlandi ef hann skrifaði undir plagg og félli frá skaðabótum og kærumálum vegna þess að Flugrútan var tekin af honum, Þetta eru vinnubrögð sem ég hef ekki séð áður,“ segir Jóhannes.