Hin ægilegasta uppreisn Illugi Jökulsson skrifar 14. júní 2015 09:00 Riddari á Tang-tímanum Árið var 755 og austur í Kína var allt í blóma. Í hálfa aðra öld hafði Tang-ættin setið þar á valdastóli og ríkt yfir einhverju mesta friðsemdar- og framfaraskeiði í sögu ríkisins. Kína var langfjölmennasta ríki heimsins um þær mundir, íbúar líklega rúmlega 70 milljónir þegar þar var komið sögu og lífshættir alþýðu með því besta sem þekktist. Að vísindum, tækni og iðnaði stóð Kína öllum framar, en menning og listir blómstruðu líka. Ég hef það fyrir satt að hvorki fyrr né síðar hafi ljóðlist Kínverja náð svo ljúffögrum hæðum sem um miðja áttundu öldina. Og frekari sigurganga virtist blasa við. Landamæri ríkisins voru örugg, hirðingjaþjóðir Khítana og fleiri létu að vísu stundum ófriðlega í norðri en herforingjar Tang-manna áttu þó ekki í teljandi erfiðleikum með að halda þeim í skefjum. Í Suðaustur-Asíu voru nær eingöngu leppríki Kínverja, sama má segja um Kóreu og Japan í austri. Og þótt veldi Tíbeta væri nokkuð öflugt um þær mundir stafaði Kínverjum engin raunveruleg hætta þaðan. Í Mið-Asíu höfðu þeir sótt fram eftir silkileiðinni svokölluðu og þótt þeir hefðu örfáum árum fyrr beðið ósigur fyrir nýju kalífaveldi Abbasída í námunda við hinn fagra Ferghana-dal, þá var lítill vafi á að ef verulega skærist í odda millum Abbasída og Kínverja myndu hinir síðarnefndu að lokum hafa sigur. Þó var veldi Abbasída hið eina í veröldinni sem gat keppt við Kínverja að styrk og stærð. Indland var um þær mundir klofið í mörg og sundurþykk ríki. Hið gamla stórveldi Býsansmanna var ekki svipur hjá sjón við austanvert Miðjarðarhafið, það var árið 755 undir stjórn keisara sem kallaðist Konstantín kúkur og þarf ekki að hafa fleiri orð um það. Í Vestur-Evrópu voru engin ríki sem náðu máli nema hvað Frankar voru byrjaðir að safna í þokkalegt veldi seinna; Karlamagnús var þá sjö ára.HINN GÓÐI VANAGANGUR Svo allt var lífið ábyggilega hið fegursta í augum Kínakeisara, hins sjötuga Xuanzong sem sat í hinni glæsilegu höfuðborg sinni Chang'an þar sem bjó að minnsta kosti milljón manns og jafnvel Mikligarður eða Bagdad komust varla í hálfkvisti við borgina að ríkidæmi og auðugu mannlífi og menningu. Allt gekk sinn góða vanagang eins og þegar best lætur hjá Kínverjum, stjórnsýslan var skilvirk og menn voru farnir að prenta bækur og gera tilraunir með peningaseðla. Lengra varð ekki komist í þá daga. En … það er alltaf eitthvert „en“. Og nú kom til sögunnar alveg tröllvaxið og akfeitt „en“. Maður hét An Lushan. Faðir hans var líklega úr Mið-Asíu en hann dó snemma og kom lítið við sögu drengsins. Móðir hans var Göktyrki og seiðkona mikil, að því er sagt er. Þegar An Lushan var ungur bjó hann í námunda við Beijing og upp komst að hann hafði gerst sekur um sauðaþjófnað. Kínverskur herforingi á svæðinu hreifst hins vegar af líkamsburðum piltsins og taldi hann geta komið að gagni í lögreglunni. An Lushan varð lögga og seinna hermaður. Hann var dugnaðurinn uppmálaður þótt hann yrði snemma svo feitur að athugasemdir þar að lútandi fylgja nærri öllum sögum um hann. Að lokum varð hann æðsti hershöfðingi Tang-ættarinnar í stöðugum skærum við Khítana í Mansjúríu og þar gekk á ýmsu. Hann átti til að ögra Khítönum til innrásar í ríkið svo hann gæti sótt fram gegn þeim, öðru sinni stóð til að lífláta hann fyrir alltof fífldjarfa árás sem endaði með ósköpum en velgjörðarmaður hans í hernum sendi hann þá til höfuðborgarinnar Chang'an þar sem hann leitaði á náðir Xuanzong keisara og fékk að halda lífinu.An LushanTRÚFASTA HJARTA Nú kom í ljós að An Lushan hafði ekki aðeins hæfileika sem herforingi. Hann var líka smjaðrari svo af bar. Hann jós yfir keisarann og valdamikla embættismenn lofi og prísi og dýrum gjöfum og var um leið óþreytandi að lýsa yfir vináttu sinni og hollustu. Einu sinni spurði keisarinn þegar An Lushan kom í heimsókn: „Hvað geymirðu eiginlega í þessum villimannlega belg þínum?“ Og An Lushan svaraði að bragði: „Fyrir utan mitt trúfasta hjarta, ekki neitt.“ Og þar fram eftir götunum. En raunar voru ýmsir farnir að efast um trúfesti þess hjarta sem An Lushan geymdi í belg sínum. Á leið sinni á toppinn hafði hann troðið ýmsum um tær og Guifei eftirlætiskona keisarans hafði til dæmis á honum illan bifur. Náfrændi hennar, Yang Guozhong, var einn af helstu keppinautum An Lushans um æðstu metorð í ríkinu, sá var reyndar gjörspilltur þrjótur og aumingi, en kannski velsældin og átakaleysið í ríki Tang-ættarinnar hafi þá verið orðin slík að makráður keisari eins og Xuanzong hafi ekki lengur áttað sig á þörfinni fyrir hæfileikamenn í stjórnsýslunni og því leyft vanhæfum smjaðurskjóðum að vaða uppi. Nema hvað, Guifei og Yang voru óþreytandi að lepja í keisarann að An Lushan hefði í undirbúningi uppreisn gegn honum, en Xuanzong vildi ekki trúa neinu illu upp á sitt trúfasta hjarta. En raunin var sú að þau höfðu rétt fyrir sér. An Lushan hafði komið krónprinsi keisarans upp á móti sér og þóttist viss um að þegar prinsinn tæki við að Xuanzong látnum þyrfti hann sjálfur ekki að kemba hærurnar. Hann hafði því undirbúið uppreisn vandlega og komið sér upp þrautþjálfuðum herflokki Khítana sem hlýddu hverju hans orði. Hann hugðist notfæra sér að þótt keisarinn hefði öfluga heri á landamærunum var fátt um varnir inni í miðju ríkinu og í desember 755 hóf hann uppreisn sína og sótti frá borginni Yecheng, þar sem aðalbækistöðvar hans voru, og til höfuðborgarinnar. Hann taldi með nokkrum rétti að nú væru síðustu forvöð því Yang og aðrir keppinautar hans væru í þann veginn að skera upp herör gegn honum.HVER KEISARINN AF ÖÐRUM Ég hirði ekki um að rekja gang uppreisnarinnar í smáatriðum. An Lushan lýsti sig nýjan keisara í byrjun árs 756 eftir að hafa hrakið Xuanzong á flótta frá Chang'an og þótt her hans biði ósigur í ægilegri orrustu við borgina Yongqiu, þá náði hann hinni fögru höfuðborg fyrr en síðar. Og var nú barist um allt Kína. Keisaratignin nýja varð hinum metorðagjarna manni ekki til neinnar gleði, An Lushan gerðist bitur og tortrygginn og lét pynta og aflífa þjóna sína og aðstoðarmenn af minnsta tilefni, og fór svo í ofanálag að missa heilsuna. Hann varð nærri blindur á skömmum tíma og á hinum ógnarmikla kropp skruppu fram illa lyktandi svöðusár og vellandi pollar. Í byrjun árs 757 var An Lushan skyndilega drepinn að ráði sonar síns, An Qingxu, sem lýsti sig síðan keisara og hélt uppreisninni áfram af fullum krafti. Hann var hins vegar óhæfur ræfill og 759 hafði einn helsti herforingi hans fengið nóg af ruglinu og drap An Qingxu keisara og settist sjálfur í keisarastólinn. Sá var hæfur herforingi en samviskulaus grimmdarseggur og var eftir tvö ár drepinn af syni sínum, sem gerðist þá sjálfur keisari en entist ekki nema í tvö ár. Á ýmsu hafði gengið. Xuanzong hafði sagt af sér og sonur hans tekið við sem keisari Tang-ættarinnar. Þá horfði svo illa í baráttunni við An Lushan og menn hans að nýi keisarinn skrifaði kalífa Abbasída og beiddist aðstoðar og Almansúr kalífi brást vel við og sendi hraustan herflokk sem átti sinn þátt í að um síðir snerist stríðsgæfan Tang-ættinni í hag. Árið 763 biðu uppreisnarmenn endanlegan ósigur og síðasti keisari þeirra hengdi sig á flótta. Tang-ættin var nú aftur óumdeild á keisarastóli Kína og átti eftir að halda velli til ársins 904.Xuanzong KeisariHVE MARGIR FÉLLU? Og hvað? Hvað er merkilegt við þetta? Var þetta ekki bara ein blóðug uppreisn af mörgum í sögu Kína þar sem skiptast á langir velsældartímar og svo grimmileg borgarastríð? Jú, vissulega, en eitt er það þó sem gerir uppreisn An Lushans makalausa í sögunni, og ræður því að við ættum ævinlega að muna þessi ósköp. Það er mannfallið. Í sjö og hálft ár fóru herir Tang-ættarinnar og An Lushans og arftaka hans um hið blómlega og fjölmenna Mið-Kína þar sem milljónirnar bjuggu. Héruð skiptu um eigendur hvað eftir annað, miklar fólkorrustur voru háðar þar sem fólk hrundi niður, en enn meira manntjón varð af hungursneyðum og hrakningum sem stríðið rak fólk út í. Hin magnaða höfuðborg Chang'an var rjúkandi rúst þar sem fáeinar hræður sveimuðu um eins og vofur eftir að barist hafði verið um hana mörgum sinnum. Og alls hefur verið reiknað út – með því að rannsaka manntöl bæði fyrir og eftir uppreisnina – að hvorki meira né minna en 36 milljónir manna hafi látið lífið. Það er allt að því brjálæðisleg tala. Hún þýðir í raun og veru að nærri helmingur íbúa Kína hafi dáið beinlínis af völdum þessa villimannlega borgarastríðs. Þessi eina uppreisn á miðri áttundu öld kostaði sem sé nærri helming þeirra mannslífa sem síðari heimsstyrjöldin kostaði. Og ekki nóg með það. Hún þýðir líka að nærri einn sjötti hluti alls mannkynsins hafi fallið, en fyrir uppreisnina er talið að mannkynið hafi talið um 220 milljónir sálir. Samsvarandi hlutfall nú á dögum myndi þýða að 1,2 milljarðar létu lífið beinlínis af völdum þessa borgarastríðs í Kína.MARXÍSK GLERAUGU? Skylt er að geta þess að til eru þeir sem telja mannfallið ekki hafa verið alveg svona mikið. Kannski hafi „ekki nema“ tæpar 20 milljónir fallið í þessari valdaránstilraun An Lushans. En jafnvel það væri auðvitað hryllilegt. Og það allra sorglegasta er, að allt þetta fólk dó bara út af persónulegum metnaði An Lushans. Það er sama hve þykk „marxísk“ gleraugu maður setur upp til að reyna að koma auga á undirliggjandi samfélagslegar eða pólitískar ástæður fyrir þessu fjöldamorði, þær sjást engar. Uppreisn An Lushans er afgerandi og skelfilegt dæmi um að einstaklingar geta svo sannarlega haft djúp áhrif á söguna. Og við munum líka eftir honum, við munum hvað hann sagði og gerði og hvernig hann dó, en við vitum ekkert hver þau voru eða hvað þau hétu, börnin sem dóu í milljónavís, svo stríðsherrarnir mættu fullnægja metnaði sínum. Flækjusaga Mest lesið Dagbók móður: „Munum við fara fjárhagslega á hausinn?“ Áskorun Andrew Garfield á Íslandi Lífið Katrín Tanja trúlofuð Lífið Fræga fólkið streymdi á hápunkt ársins í Þjóðleikhúsinu Lífið Gefa bretti af flugeldum að verðmæti 300.000 króna Lífið samstarf Steven og Guðný Ósk eru nýtt par Lífið Brúðkaup ársins 2024 Lífið Partyland í Holtagörðum hefur allt fyrir gamlárspartýið Lífið samstarf Eiga nú glöðustu hunda í heimi Lífið Jólagjafir íslenskra vinnustaða Lífið Fleiri fréttir Andrew Garfield á Íslandi Katrín Tanja trúlofuð Steven og Guðný Ósk eru nýtt par Fræga fólkið streymdi á hápunkt ársins í Þjóðleikhúsinu Sjáðu Sandler snúa aftur sem Happy Gilmore í nýrri kitlu Björn Ingi leikur í ofurhetjumynd Eiga nú glöðustu hunda í heimi Lést eftir að hafa fallið úr bíl á ferð Brúðkaup ársins 2024 Bestu, stærstu, slökustu og verstu myndir ársins 2024 Króli trúlofaður Jólagjafir íslenskra vinnustaða Jólagjöf ársins er stóllinn sem getur allt nema flogið Besta jólagjöfin að sjá bata foreldranna Smakkaði skötu í fyrsta sinn undir eftirliti sérfræðinga Guðmundur „ofpeppaðist“ og reif sig á kassann Hafi ekki tekið þátt í herferð gegn Lively Einn frægasti krókódíll í heimi allur Myndaveisla: Rauð jól hjá Jökli í Kaleo „Í stórgróða“ að eyða jólunum á Tene Ellen Margrét og Arnmundur orðin hjón Kolféll fyrir Amsterdam og hollenskum strák Límdi fyrir munninn á öllum við borðið „Fyrstu jólin án hans og sætið hans verður tómt“ Stjörnulífið: Bikiníjól og jól í Japan Frægir fundu ástina 2024 „Að horfa upp á ofbeldi er jafn mikið ofbeldi og að verða fyrir því“ Netverjar koma „bomsum“ Ingu á Bessastöðum til varnar Dóttir Elínar Mettu og Sigurðar komin með nafn 107 ára gömul og dansar eins og unglamb Sjá meira
Árið var 755 og austur í Kína var allt í blóma. Í hálfa aðra öld hafði Tang-ættin setið þar á valdastóli og ríkt yfir einhverju mesta friðsemdar- og framfaraskeiði í sögu ríkisins. Kína var langfjölmennasta ríki heimsins um þær mundir, íbúar líklega rúmlega 70 milljónir þegar þar var komið sögu og lífshættir alþýðu með því besta sem þekktist. Að vísindum, tækni og iðnaði stóð Kína öllum framar, en menning og listir blómstruðu líka. Ég hef það fyrir satt að hvorki fyrr né síðar hafi ljóðlist Kínverja náð svo ljúffögrum hæðum sem um miðja áttundu öldina. Og frekari sigurganga virtist blasa við. Landamæri ríkisins voru örugg, hirðingjaþjóðir Khítana og fleiri létu að vísu stundum ófriðlega í norðri en herforingjar Tang-manna áttu þó ekki í teljandi erfiðleikum með að halda þeim í skefjum. Í Suðaustur-Asíu voru nær eingöngu leppríki Kínverja, sama má segja um Kóreu og Japan í austri. Og þótt veldi Tíbeta væri nokkuð öflugt um þær mundir stafaði Kínverjum engin raunveruleg hætta þaðan. Í Mið-Asíu höfðu þeir sótt fram eftir silkileiðinni svokölluðu og þótt þeir hefðu örfáum árum fyrr beðið ósigur fyrir nýju kalífaveldi Abbasída í námunda við hinn fagra Ferghana-dal, þá var lítill vafi á að ef verulega skærist í odda millum Abbasída og Kínverja myndu hinir síðarnefndu að lokum hafa sigur. Þó var veldi Abbasída hið eina í veröldinni sem gat keppt við Kínverja að styrk og stærð. Indland var um þær mundir klofið í mörg og sundurþykk ríki. Hið gamla stórveldi Býsansmanna var ekki svipur hjá sjón við austanvert Miðjarðarhafið, það var árið 755 undir stjórn keisara sem kallaðist Konstantín kúkur og þarf ekki að hafa fleiri orð um það. Í Vestur-Evrópu voru engin ríki sem náðu máli nema hvað Frankar voru byrjaðir að safna í þokkalegt veldi seinna; Karlamagnús var þá sjö ára.HINN GÓÐI VANAGANGUR Svo allt var lífið ábyggilega hið fegursta í augum Kínakeisara, hins sjötuga Xuanzong sem sat í hinni glæsilegu höfuðborg sinni Chang'an þar sem bjó að minnsta kosti milljón manns og jafnvel Mikligarður eða Bagdad komust varla í hálfkvisti við borgina að ríkidæmi og auðugu mannlífi og menningu. Allt gekk sinn góða vanagang eins og þegar best lætur hjá Kínverjum, stjórnsýslan var skilvirk og menn voru farnir að prenta bækur og gera tilraunir með peningaseðla. Lengra varð ekki komist í þá daga. En … það er alltaf eitthvert „en“. Og nú kom til sögunnar alveg tröllvaxið og akfeitt „en“. Maður hét An Lushan. Faðir hans var líklega úr Mið-Asíu en hann dó snemma og kom lítið við sögu drengsins. Móðir hans var Göktyrki og seiðkona mikil, að því er sagt er. Þegar An Lushan var ungur bjó hann í námunda við Beijing og upp komst að hann hafði gerst sekur um sauðaþjófnað. Kínverskur herforingi á svæðinu hreifst hins vegar af líkamsburðum piltsins og taldi hann geta komið að gagni í lögreglunni. An Lushan varð lögga og seinna hermaður. Hann var dugnaðurinn uppmálaður þótt hann yrði snemma svo feitur að athugasemdir þar að lútandi fylgja nærri öllum sögum um hann. Að lokum varð hann æðsti hershöfðingi Tang-ættarinnar í stöðugum skærum við Khítana í Mansjúríu og þar gekk á ýmsu. Hann átti til að ögra Khítönum til innrásar í ríkið svo hann gæti sótt fram gegn þeim, öðru sinni stóð til að lífláta hann fyrir alltof fífldjarfa árás sem endaði með ósköpum en velgjörðarmaður hans í hernum sendi hann þá til höfuðborgarinnar Chang'an þar sem hann leitaði á náðir Xuanzong keisara og fékk að halda lífinu.An LushanTRÚFASTA HJARTA Nú kom í ljós að An Lushan hafði ekki aðeins hæfileika sem herforingi. Hann var líka smjaðrari svo af bar. Hann jós yfir keisarann og valdamikla embættismenn lofi og prísi og dýrum gjöfum og var um leið óþreytandi að lýsa yfir vináttu sinni og hollustu. Einu sinni spurði keisarinn þegar An Lushan kom í heimsókn: „Hvað geymirðu eiginlega í þessum villimannlega belg þínum?“ Og An Lushan svaraði að bragði: „Fyrir utan mitt trúfasta hjarta, ekki neitt.“ Og þar fram eftir götunum. En raunar voru ýmsir farnir að efast um trúfesti þess hjarta sem An Lushan geymdi í belg sínum. Á leið sinni á toppinn hafði hann troðið ýmsum um tær og Guifei eftirlætiskona keisarans hafði til dæmis á honum illan bifur. Náfrændi hennar, Yang Guozhong, var einn af helstu keppinautum An Lushans um æðstu metorð í ríkinu, sá var reyndar gjörspilltur þrjótur og aumingi, en kannski velsældin og átakaleysið í ríki Tang-ættarinnar hafi þá verið orðin slík að makráður keisari eins og Xuanzong hafi ekki lengur áttað sig á þörfinni fyrir hæfileikamenn í stjórnsýslunni og því leyft vanhæfum smjaðurskjóðum að vaða uppi. Nema hvað, Guifei og Yang voru óþreytandi að lepja í keisarann að An Lushan hefði í undirbúningi uppreisn gegn honum, en Xuanzong vildi ekki trúa neinu illu upp á sitt trúfasta hjarta. En raunin var sú að þau höfðu rétt fyrir sér. An Lushan hafði komið krónprinsi keisarans upp á móti sér og þóttist viss um að þegar prinsinn tæki við að Xuanzong látnum þyrfti hann sjálfur ekki að kemba hærurnar. Hann hafði því undirbúið uppreisn vandlega og komið sér upp þrautþjálfuðum herflokki Khítana sem hlýddu hverju hans orði. Hann hugðist notfæra sér að þótt keisarinn hefði öfluga heri á landamærunum var fátt um varnir inni í miðju ríkinu og í desember 755 hóf hann uppreisn sína og sótti frá borginni Yecheng, þar sem aðalbækistöðvar hans voru, og til höfuðborgarinnar. Hann taldi með nokkrum rétti að nú væru síðustu forvöð því Yang og aðrir keppinautar hans væru í þann veginn að skera upp herör gegn honum.HVER KEISARINN AF ÖÐRUM Ég hirði ekki um að rekja gang uppreisnarinnar í smáatriðum. An Lushan lýsti sig nýjan keisara í byrjun árs 756 eftir að hafa hrakið Xuanzong á flótta frá Chang'an og þótt her hans biði ósigur í ægilegri orrustu við borgina Yongqiu, þá náði hann hinni fögru höfuðborg fyrr en síðar. Og var nú barist um allt Kína. Keisaratignin nýja varð hinum metorðagjarna manni ekki til neinnar gleði, An Lushan gerðist bitur og tortrygginn og lét pynta og aflífa þjóna sína og aðstoðarmenn af minnsta tilefni, og fór svo í ofanálag að missa heilsuna. Hann varð nærri blindur á skömmum tíma og á hinum ógnarmikla kropp skruppu fram illa lyktandi svöðusár og vellandi pollar. Í byrjun árs 757 var An Lushan skyndilega drepinn að ráði sonar síns, An Qingxu, sem lýsti sig síðan keisara og hélt uppreisninni áfram af fullum krafti. Hann var hins vegar óhæfur ræfill og 759 hafði einn helsti herforingi hans fengið nóg af ruglinu og drap An Qingxu keisara og settist sjálfur í keisarastólinn. Sá var hæfur herforingi en samviskulaus grimmdarseggur og var eftir tvö ár drepinn af syni sínum, sem gerðist þá sjálfur keisari en entist ekki nema í tvö ár. Á ýmsu hafði gengið. Xuanzong hafði sagt af sér og sonur hans tekið við sem keisari Tang-ættarinnar. Þá horfði svo illa í baráttunni við An Lushan og menn hans að nýi keisarinn skrifaði kalífa Abbasída og beiddist aðstoðar og Almansúr kalífi brást vel við og sendi hraustan herflokk sem átti sinn þátt í að um síðir snerist stríðsgæfan Tang-ættinni í hag. Árið 763 biðu uppreisnarmenn endanlegan ósigur og síðasti keisari þeirra hengdi sig á flótta. Tang-ættin var nú aftur óumdeild á keisarastóli Kína og átti eftir að halda velli til ársins 904.Xuanzong KeisariHVE MARGIR FÉLLU? Og hvað? Hvað er merkilegt við þetta? Var þetta ekki bara ein blóðug uppreisn af mörgum í sögu Kína þar sem skiptast á langir velsældartímar og svo grimmileg borgarastríð? Jú, vissulega, en eitt er það þó sem gerir uppreisn An Lushans makalausa í sögunni, og ræður því að við ættum ævinlega að muna þessi ósköp. Það er mannfallið. Í sjö og hálft ár fóru herir Tang-ættarinnar og An Lushans og arftaka hans um hið blómlega og fjölmenna Mið-Kína þar sem milljónirnar bjuggu. Héruð skiptu um eigendur hvað eftir annað, miklar fólkorrustur voru háðar þar sem fólk hrundi niður, en enn meira manntjón varð af hungursneyðum og hrakningum sem stríðið rak fólk út í. Hin magnaða höfuðborg Chang'an var rjúkandi rúst þar sem fáeinar hræður sveimuðu um eins og vofur eftir að barist hafði verið um hana mörgum sinnum. Og alls hefur verið reiknað út – með því að rannsaka manntöl bæði fyrir og eftir uppreisnina – að hvorki meira né minna en 36 milljónir manna hafi látið lífið. Það er allt að því brjálæðisleg tala. Hún þýðir í raun og veru að nærri helmingur íbúa Kína hafi dáið beinlínis af völdum þessa villimannlega borgarastríðs. Þessi eina uppreisn á miðri áttundu öld kostaði sem sé nærri helming þeirra mannslífa sem síðari heimsstyrjöldin kostaði. Og ekki nóg með það. Hún þýðir líka að nærri einn sjötti hluti alls mannkynsins hafi fallið, en fyrir uppreisnina er talið að mannkynið hafi talið um 220 milljónir sálir. Samsvarandi hlutfall nú á dögum myndi þýða að 1,2 milljarðar létu lífið beinlínis af völdum þessa borgarastríðs í Kína.MARXÍSK GLERAUGU? Skylt er að geta þess að til eru þeir sem telja mannfallið ekki hafa verið alveg svona mikið. Kannski hafi „ekki nema“ tæpar 20 milljónir fallið í þessari valdaránstilraun An Lushans. En jafnvel það væri auðvitað hryllilegt. Og það allra sorglegasta er, að allt þetta fólk dó bara út af persónulegum metnaði An Lushans. Það er sama hve þykk „marxísk“ gleraugu maður setur upp til að reyna að koma auga á undirliggjandi samfélagslegar eða pólitískar ástæður fyrir þessu fjöldamorði, þær sjást engar. Uppreisn An Lushans er afgerandi og skelfilegt dæmi um að einstaklingar geta svo sannarlega haft djúp áhrif á söguna. Og við munum líka eftir honum, við munum hvað hann sagði og gerði og hvernig hann dó, en við vitum ekkert hver þau voru eða hvað þau hétu, börnin sem dóu í milljónavís, svo stríðsherrarnir mættu fullnægja metnaði sínum.
Flækjusaga Mest lesið Dagbók móður: „Munum við fara fjárhagslega á hausinn?“ Áskorun Andrew Garfield á Íslandi Lífið Katrín Tanja trúlofuð Lífið Fræga fólkið streymdi á hápunkt ársins í Þjóðleikhúsinu Lífið Gefa bretti af flugeldum að verðmæti 300.000 króna Lífið samstarf Steven og Guðný Ósk eru nýtt par Lífið Brúðkaup ársins 2024 Lífið Partyland í Holtagörðum hefur allt fyrir gamlárspartýið Lífið samstarf Eiga nú glöðustu hunda í heimi Lífið Jólagjafir íslenskra vinnustaða Lífið Fleiri fréttir Andrew Garfield á Íslandi Katrín Tanja trúlofuð Steven og Guðný Ósk eru nýtt par Fræga fólkið streymdi á hápunkt ársins í Þjóðleikhúsinu Sjáðu Sandler snúa aftur sem Happy Gilmore í nýrri kitlu Björn Ingi leikur í ofurhetjumynd Eiga nú glöðustu hunda í heimi Lést eftir að hafa fallið úr bíl á ferð Brúðkaup ársins 2024 Bestu, stærstu, slökustu og verstu myndir ársins 2024 Króli trúlofaður Jólagjafir íslenskra vinnustaða Jólagjöf ársins er stóllinn sem getur allt nema flogið Besta jólagjöfin að sjá bata foreldranna Smakkaði skötu í fyrsta sinn undir eftirliti sérfræðinga Guðmundur „ofpeppaðist“ og reif sig á kassann Hafi ekki tekið þátt í herferð gegn Lively Einn frægasti krókódíll í heimi allur Myndaveisla: Rauð jól hjá Jökli í Kaleo „Í stórgróða“ að eyða jólunum á Tene Ellen Margrét og Arnmundur orðin hjón Kolféll fyrir Amsterdam og hollenskum strák Límdi fyrir munninn á öllum við borðið „Fyrstu jólin án hans og sætið hans verður tómt“ Stjörnulífið: Bikiníjól og jól í Japan Frægir fundu ástina 2024 „Að horfa upp á ofbeldi er jafn mikið ofbeldi og að verða fyrir því“ Netverjar koma „bomsum“ Ingu á Bessastöðum til varnar Dóttir Elínar Mettu og Sigurðar komin með nafn 107 ára gömul og dansar eins og unglamb Sjá meira