Aron Pálmarsson var tekinn úr umferð allan leikinn gegn Hvíta-Rússlandi en ólíklegt er að Króatar spili sama leik í kvöld.
„Ég trúi því ekki að þeir geri það. Við skoruðum 38 mörk gegn Hvít-Rússum. Ég trúi því ekki að lið sem hefur horft á þann leik reyni að leika það eftir. Við spiluðum þá sundur og saman. Það er samt ömurlegt að vera tekinn úr umferð. Á meðan við skoruðum alltaf gat ég ekkert sagt. Ég stóð því bara á miðjunni og horfði á þessa frábæru sókn okkar,“ segir Aron ákveðinn.
Þó svo tapið gegn Hvít-Rússum hafi verið einstaklega svekkjandi þá svaf Aron vel.
Sjá einnig: Guðjón Valur: Vil spila leiki sem eru upp á meira en kók og prins
„Ég hef aldrei verið í veseni með það. Ég hef alltaf haft svo gaman af því að sofa að ég læt ekki svona á mig fá. Við eigum ekki að tapa svefni yfir þessu. Við höfum tapað leik áður og verið í verri stöðu en þetta. Þetta er bara skemmtilegt að vera kominn í úrslitaleik.
„Við höfum aðallega verið að horfa á varnarleikinn hjá okkur. Það þarf ekki að gera neitt sérstakt til að rífa okkur upp fyrir úrslitaleik. Við verðum á tánum. Þetta er bara stríð og við ætlum að halda áfram á þessu móti,“ segir Aron en hann býst við átakaleik.
Sjá einnig: Ísland hefur aldrei unnið Króatíu á stórmóti
„Það fylgir þessu og er bara skemmtilegra. Við erum klárir í það. Við hendum Lexa fram og þá eru slagsmálin búin. Við erum til í allt og komum vel stemmdir. Við ætlum að berja frá okkur og vera trylltir.“
Sjá má viðtalið við Aron í heild sinni hér að ofan.
Ekki missa af neinu sem gerist á EM. Fylgdu Vísi á Twitter, Facebook og Snapchat (notendanafn: sport365).
