Konan sem lenti í köfunarslysi í Silfru í gær er áfram mjög þungt haldin. Hún liggur nú á gjörgæsludeild Landspítalans við Hringbraut.
Þetta segir Anna Sigrún Baldursdóttir, aðstoðarmaður forstjóra spítalans, í samtali við Vísi.
Grímur Hergeirsson, rannsóknarlögreglumaður á Suðurlandi, staðfestir að um kínverska konu á þrítugsaldri sé að ræða.
Hann segir málið vera í rannsókn og að verið sé að ræða við vitni. Fyrst og fremst sé um erlenda ferðamenn að ræða og því þurfi aðstoð túlka.
Lögreglan á Selfossi var kölluð út um hádegisbilið í gær vegna slyssins og var konan sótt með þyrlu Landhelgisgæslunnar og flutt á Reykjavíkurflugvöll. Þaðan var konunni ekið á Landspítalann við Hringbraut.
