„Í gær áttum við fund við Aron. Í samningi okkar sem var til 2017 var heimild til uppsagnar fyrir 1. mars í ár," sagði Guðmundur B. Ólafsson, formaður HSÍ, á blaðamannfundinum í dag þar sem kom fram að Aron væri hættur með liðið. Það var aftur á móti Aron sem nýtti sér uppsagnarákvæðið sjálfur.
„Fullt samkomulag á milli okkar um þessa tilhögun. Aron kominn að leiðarlokum núna en allt gert í góðu samkomulagi,“ segir Guðmundur.
Ísland féll úr leik á Evrópumeistaramótinu í Póllandi á þriðjudag eftir að hafa tapað fyrir Króatíu og Hvíta-Rússlandi í síðustu tveimur leikjum sínum á mótinu. Ísland fékk 76 mörk á sig í leikjunum tveimur.
Sjá einnig: Uppbygging landsliðsins gæti tekið tíma
Þetta er í fyrsta sinn síðan á EM 2004 að Ísland kemst ekki áfram í milliriðlakeppnina en eftir sigur á Noregi í fyrsta leik í Póllandi stóðu vonir til að Ísland gæti náð langt í mótinu.
Yfirlýst markmið Íslands á EM í Póllandi var að koma liðinu í forkeppni Ólympíuleikanna í Ríó en það tókst ekki. Ísland verður því ekki með handboltalið á Ólympíuleikum í fyrsta sinn síðan á ÓL 2000.

Aron var ráðinn landsliðsþjálfari í ágúst 2012, stuttu eftir að Ísland keppti á Ólympíuleikunum í Lundúnum. Liðið lék þar undir stjórn Guðmundar Guðmundssonar og féll úr leik í 8-liða úrslitum eftir tap gegn Ungverjalandi.
Sjá einnig: Geir og Kristján réttu mennirnir fyrir landsliðið
Besti árangurs Arons kom á Evrópumeistaramótinu í Danmörku árið 2014. Þar hafnaði Ísland í fimmta sæti. Ísland keppti einnig á tveimur heimsmeistarakeppnum undir stjórn Arons en féll í bæði skiptin úr leik í 16-liða úrslitunum.
Sjá einnig: Guðjón: Var tímabært að skipta um þjálfara eftir HM í Katar
Aron var þjálfari Hauka á fyrsta ári sínu sem landlsliðsþjálfari og stýrði einnig danska liðinu KIF Kolding Köbenhavn um tíma og gerði liðið að dönskum meisturum árin 2014 og 2015.

Upphaflegur samningur Arons við HSÍ var til 2015 en í júní á síðasta ári gerði HSÍ nýjan tveggja ára samning við Aron, sem nú hefur verið riftur. Gunnar Magnússon hefur verið aðstoðarmaður Arons frá fyrsta degi en Ólafur Stefánsson bættist í þjálfarateymið síðastliðið vor.
Fyrsta stóra verkefni nýs landsliðsþjálfara verður að koma Íslandi á HM 2017 í Frakklandi. Undankeppnin fer fram í júní en enn liggur ekki fyrir hver andstæðingur Íslands verður.