Ástandið við Jökulsárlón er sagt skelfilegt, litla sem enga klósettaðstöðu er að finna við þennan einn vinsælasta ferðamannastað landsins. Þarna koma að jafnaði mörg hundruð manns á degi hverjum en litla sem enga salernisaðstöðu er að finna á staðnum. Þetta vandamál er sannarlega ekki nýtt af nálinni. Í skýrslu Ferðamálaráðs sem kom út fyrir ári, þar sem ferðamenn kvörtuðu ákaft undan lélegri þjónustu á staðnum. En ekkert er hins vegar gert til að leysa vandann. Ástæðuna má kannski rekja til hrepparígs; rekstraraðilar og eigendur lands geta ekki komið sér saman og vilja stilla hver öðrum upp við vegg. Blaðamaður Vísis reyndi að komast til botns í málinu, en það er hægara sagt en gert.
Langvarandi og flóknar deilur
Ástæðuna er að finna í djúpstæðum og langvarandi ágreiningi milli rekstraraðila og landeigenda. Sem ekki er gott að henda reiður á. Bent var nú nýverið á þennan vanda, ófremdarástand, á Facebook-hópnum Bakland ferðaþjónustunnar og sagt að mælirinn væri fullur. Fyrir löngu. Umræðan er löng og mikil og við enda hennar gefa sig fram deiluaðilar sem bera ábyrgð á ástandinu.


Bjarni Sævar segir það lengi hafa verið baráttumál Sameigendafélag Fells að stuðla að varanlegri uppbyggingu á eystri bakka lónsins. „Það verði gert samkvæmt þeim lögum og reglum sem í gildi eru, þess vegna var farið út í deiliskipulagsvinnu fyrir svæðið þar sem hugsað er fyrir öllum hlutum. Það er mikil einföldun að telja að einhver framtíðalausn sé fólgin í því að draga þarna á svæðið einhverjar gámaeiningar eins og rekstraraðilinn segist hafa boðist til. Hvernig ætlar þessi aðili halda 20 klósettum opnum þegar mönnum tekst ekki einu sinni að halda tveimur snyrtingum í þokkalegri virkni?“ spyr Bjarni Sævar og segir að koma verði upp varanlegu fráveitukerfi með rotþróm og hreinsibúnaði eins og lög og reglur kveða á um.

Ólafur Hauksson telur að ferðamanninum standi á sama um hvort um skammtíma- eða langtímalausn sé að ræða. „Ferðamaðurinn þarf að komast á klósettið NÚNA - ekki eftir einhver ár. Vonandi skil ég ekki rétt að landeigendur komi í veg fyrir fjölgun klósetta til þess að stilla rekstraraðilanum upp við vegg?“
Þetta er allt hinum að kenna
Einar Björn segir þetta rétt og hann hafi verið tilbúinn til að byggja upp flotta aðstöðu, hann hafi verið kominn á lokastig árið 2007 við að hrinda af stað samkeppnisaðstöðu milli arkitekta.

Báðir telja þeir hinn aðilann standa í vegi fyrir því að ferðamennirnir fái að sinna þessum grunnþörfum, sem felast í að komast á klósettið. Málið er í hnút. Rembihnút. Og meðan mega þeir sem þarna koma við halda í sér eða (ó)hreinlega gera þarfir sínar úti í guðs grænni.