Tveimur nýjum viðvörunarskiltum verður komið upp í Reynisfjöru á morgun, fimmtudag, en eins og greint hefur verið frá lauk vakt lögreglunnar á svæðinu í dag en vaktinni var komið á í kjölfar banaslyss sem varð í fjörunni fyrir tveimur vikum.
Unnin var öryggisúttekt af verkfræðistofunni EFLU í samvinnu við lögregluna á Suðurlandi og heimamenn í Reynishverfi en að sögn Böðvars Tómassonar, fagstjóra öryggismála hjá EFLU, var fyrst farið í að vinna að bráðaaðgerðum á svæðinu.
„Þær felast í að setja upp þessi tvö nýju skilti, bæði við gönguleiðina í fjöruna og þar sem menn keyra að bílastæðinu. Þetta miðar að því að koma betri upplýsingum á framfæri við ferðamennina en nýja skiltið við gönguleiðina verður til dæmis á öðrum stað en það gamla, það er fjörumegin og mun snúa þannig að það sé meira áberandi en verið hefur,“ segir Böðvar í samtali við Vísi.
Keðjur settar upp
Fyrir nýju skiltin hannaði EFLA nýtt varnaðarmerki vegna öldugangs sem byggir á alþjóðlegum stöðlum. Þá er jafnframt kínverskt tákn á fyrir hættu á nýju skiltunum sem hefur verið áður á skiltum í Reynisfjöru en ferðamaður sem fórst í fjörunni í byrjun mánaðarins var einmitt frá Kína.
Auk þessa verða á næstu dögum settar upp keðjur og merkingar til beina ferðamönnum rétta leið inn á svæðið þannig að allir muni fara sömu leið að fjörunni. Á vormánuðum munu verða svo sett upp fleiri skilti sem munu meðal annars skýra nánar út öldulagið í Reynisfjöru með skýringarmynd og ítarlegum upplýsingum.
„Við höfum verið að vinna svolitla grunnvinnu þarna í Reynisfjöru varðandi hvernig svona skilti geta verið og vonumst til að þessi vinna geti nýst á öðrum ferðamannastöðum og verið leiðbeinandi fyrir önnur viðvörunarskilti,“ segir Böðvar.
Kínverskt tákn fyrir hættu á nýjum skiltum í Reynisfjöru

Tengdar fréttir

Lögreglan hætt að vakta Reynisfjöru
„Það sem við höfum einna helst verið að skipta okkur af er þegar fólk fer of nálægt fjöruborðinu og ætlar að leika sér í öldunum eða flæðarmálinu.“

Viðvörunarbjöllurnar klingja sem aldrei fyrr
Ofan í umræðu um öryggi erlendra ferðamanna staðfestir Ferðamálastofa að fjölgun ferðamanna á milli ára var þrjátíu prósent. Sérfræðingur segir að treysta verði og byggja upp flesta innviði í landinu til að mæta fjölguninni.

Stóð á steini og tók myndir þegar aldan greip hann
Lögreglan á Suðurlandi fer með rannsókn málsins.

Ætluðu að stinga sér til sunds í sjónum við Reynisfjöru
Lögreglan á Suðurlandi hefur nú í viku verið með vakt í Reynisfjöru í kjölfar þess að kínverskur ferðamaður lést í fjörunni.

Hinn látni var Kínverji um fertugt
Fólk sem varð vitni að banaslysinu í Reynisfjöru í morgun lýsir því hvernig stór alda náði til hans í stuðlaberginu.