Viðskipti erlent

Formúla 1 metin á þúsund milljarða

Sæunn Gísladóttir skrifar
Formúlu 1 keppnin dregur að milljónir áhorfenda eins og sjá má í Mónakó.
Formúlu 1 keppnin dregur að milljónir áhorfenda eins og sjá má í Mónakó. Fréttablaðið/AFP
Fjárhagsstaða kapp­aksturs­keppninnar Formúlu 1 hefur sjaldan verið betri en nú þegar ný keppnistíð hófst í síðustu viku. Samkvæmt nýjustu ársskýrslum nam rekstrarhagnaður móðurfélags F1, Delta Topco, 519,8 milljónum dollara, jafnvirði 66 milljarða íslenskra króna á árinu 2014.

Tekjur Delta Topco námu 1,8 milljörðum dollara, jafnvirði 220 milljarða íslenskra króna, og hafa aldrei verið hærri. Þær hafa vaxið um 80 prósent á síðasta áratug.

Nokkrar ástæður eru fyrir velgengni félagsins samkvæmt umfjöllun The Sunday Times. Í fyrsta lagi heldur F1 kostnaði niðri með því að eiga engin lið eða keppnisbrautir, og er einungis með 352 starfsmenn. Stærsti kostnaðarhlutinn er að 63 prósent af hagnaði fara í vinningsfé. Frá 2009 til 2014 hækkaði vinningsfé um 31 prósent í 863,1 milljón dollara, rúmlega 100 milljarða króna, vegna aukins áhuga á F1.

Hins vegar er dregið úr áhættu með því að láta vinningsféð vera hlutfall af hagnaði.

Delta Tropco þarf einungis að endurnýja 10-20 prósent samninga sinna árlega. Samningarnir endast að meðaltali í fimm ár og ver félagið sig gegn verðbólgu með þeim.

Það að tekjur fyrirtækisins tengjast ekki velgengni á kappakstursbrautinni gerir að verkum að fjárfestar líta á félagið sem áhættulitla fjárfestingu. Er fyrirtækið nú metið á 8,6 milljarða dollara, 1.000 milljarða íslenskra króna. Eigið fé félagsins nemur nær helmingi verðmatsins.

Einhverjir fjárfestar telja að um ofmat sé að ræða. Aukinn áhugi á keppninni og hátt hlutabréfaverð benda til þess að matið sé rétt sem stendur.



Fréttin birtist fyrst Fréttablaðinu 24. mars

Uppfært: Upprunalega stóð að nýtt keppnistímabil hæfist eftir nokkrar vikur. Hið rétta er að það hófst um síðastliðna helgi.







Fleiri fréttir

Sjá meira


×