Innlent

Farið í átak til að stytta bið sjúklinga eftir brýnum aðgerðum

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra, undirritaði í dag samninga við fjórar heilbrigðisstofnanir um þátttöku þeirra í skipulögðu átaki til að stytta bið sjúklinga eftir ákveðnum brýnum aðgerðum.

Samningarnir eru við Landspítalann, Sjúkrahúsið á Akureyri,  Heilbrigðisstofnun Vesturlands og fyrirtækið Sjónlag hf.  Í tilkynningu frá velferðarráðuneytinu kemur fram að áætlað er að verja um 1,6 milljarði króna til verkefnisins á árunum 2016-2018 en þar af mun helmingur fjárins vera nýttur á þessu ári.

Í ár verður ráðist í að stytta til muna bið fólks eftir liðskiptaaðgerðum, hjartaþræðingum og augasteinsaðgerðum en markmiðið er að í lok átaksins þurfi sjúklingar ekki að bíða lengur en þrjá mánuði eftir aðgerð.

Stefnt er að því að fjölgað liðskiptaaðgerðum um 530, augasteinsaðgerðum um 2890 og hjartaþræðingum um 50, en bið sjúklinga eftir aðgerðum lengdist verulega í fyrravetur meðan á verkföllum heilbrigðisstarfsfólks stóð.

„Við stígum hér enn eitt stórt skref sem miðar að því að bæta þjónustu við sjúklinga, auka lífsgæði fólks og styrkja heilbrigðiskerfið,“ er haft eftir heilbrigðisráðherra í tilkynningu.

„Nú tökumst við á við biðlistana með það að markmiði að hámarksbið eftir aðgerð verði ekki lengri en 90 dagar.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×