Körfubolti

Steve Kerr vill helst hvíla menn en mun ræða það við leikmennina sjálfa

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Steve Kerr með Stephen Curry á bekknum.
Steve Kerr með Stephen Curry á bekknum. Vísir/Getty
Golden State Warriors tryggði sér heimavallarrétt út úrslitakeppni NBA-deildarinnar í körfubolta með sigri á San Antonio Spurs í nótt. Þetta var 70. sigur Golden State á tímabilinu.

Liðið á enn eftir þrjá leiki og hefur því möguleika á því að verða fyrsta NBA-lið sögunnar til að vinna 73 leiki á einu tímabili. Met Chicago Bulls frá 1995-96 er 72 sigurleikir.

Það styttist í úrslitakeppnina og það er freistandi fyrir Steve Kerr, þjálfara Golden State Warriors, að hvíla lykilmenn sína fyrir átökin þar nú þegar liðið hefur tryggt sér efsta sætið.

„Við munum ræða þetta saman á morgun. Við höfum ýtt þessu á undan okkur en núna þegar fyrsta sætið er tryggt þá hallast sé að því að hvíla menn sem þurfa á því að halda," sagði Steve Kerr á blaðamannafundi eftir leikinn.

Steve Kerr var sjálfur leikmaður með Chicago Bulls liðinu sem setti metið fyrir tuttugu árum en þetta eru einu tvö liðin sem hafa náð því að vinna 70 deildarleiki á einu NBA-tímabili.

„Ég hef eiginlega gert einskonar samning við strákana að ef að þeir eru ekki þreyttir, ekki meiddir og vilja reyna við metið þá muni ég leyfa þeim að spila," sagði Kerr.

Draymond Green er einn af leikmönnum Golden State Warriors sem vill reyna við metið en það hjálpar liðinu vissulega að flest allir lykilmenn þess eru undir þrítugu og því er aldurinn ekki að trufla þá mikið.

„Ég er bara 26 ára. Þegar ég verð orðin 36 ára þá fer ég kannski að hugsa meira um það að hvíla. Ég ætla ekki að hvíla," sagði stjörnubakvörðurinn Klay Thompson.

„Við hugsuðum fyrst og fremst um að klára þennan leik og tryggja okkur heimavallarréttinn út úrslitakeppnina. Það var okkar markmið. Nú eru þrír leikir eftir og við getum ennþá náð 73 sigurleikjum. Það er því enn mikið í boði," sagði Stephen Curry, besti leikmaður deildarinnar.

Síðustu leikir Golden State Warriors liðsins eru á móti Memphis á útivelli á laugardaginn, á móti San Antonio á útivelli á sunnudaginn og svo á móti Memphis á heimavelli á miðvikudaginn í næstu viku.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×