Innlent

Ríkisskattstjóri vill upplýsingar um Íslendingana

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Skúli Eggert Þórðarson ríkisskattstjóri segir engan liggja undir grun.
Skúli Eggert Þórðarson ríkisskattstjóri segir engan liggja undir grun. Vísir/Anton Brink
Embætti ríkisskattsstjóra hefur kallað eftir aðgangi að Panama-skjölunum með það fyrir augum að sjá hvort sex hundruð Íslendingar hafi gert grein fyrir félögum sínum á skattframtali sínu. Þetta staðfestir Skúli Eggert Þórðarson ríkisskattstjóri í samtali við Vísi.

„Við erum búin að biðja um aðgang að gögnunum. Við gerðum það í dag,“ segir Skúli Eggert og segir það hafa verið gert skriflega við Reykjavik Media. Engin sérstök rök hafi verið færð fyrir því að embættið fái gögnin í hendur.

„Hin almennu rök eru að þarna er upplýst um að 600 Íslendingar séu þarna með það sem kallað er félög í gegnum Panama. Við viljum gjarnan fá að sjá þessi gögn með það fyrir augum að kanna hvort þessir aðilar hafi gert grein fyrir þessum gögnum á skattframtali sínu og bera þau saman við önnur gögn sem við höfum.“

Skúli Eggert segir engan grunaðan um skattsvik eða neitt slíkt.

„Nei, við viljum bara ganga úr skugga um hvort þetta sé í lagi eða ekki.“

Hann segir embættið kalla eftir gögnunum samkvæmt sérstakri heimild í tekjuskattslögum.

Ríkisskattstjóri hafði ekki fengið svar þegar Vísir ræddi við hann enda lægi svo sem ekki á gögnunum.

„Þeir hafa tíma til að svara, við heimtum þetta ekki í dag,“ segir Skúli.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×