Eins og flestum er kunnugt um tilkynnti Ólafur Ragnar að hann hyggist sækjast eftir endurkjöri í komandi forsetakosningum þann 25. júní næstkomandi en hann hafði áður lýst því yfir í ávarpi sínu á nýársdag að hann ætlaði ekki að bjóða sig fram á ný.
Í yfirlýsingu sem Ólafur Ragnar las upp á blaðamannafundi á Bessastöðum í gær kvaðst hann með framboði sínu nú vera að bregðast við áskorun frá breiðri fylkingu manna sem hafi skorað á hann að gefa kost á sér aftur.

„Og þá er stjórnskipun íslenska lýðveldisins þannig að það er ekki Alþingi sem ber ábyrgð á því hvort landið verður stjórnlaust eða ekki við þær aðstæður. Það er forsetinn.“
Ljóst er að Ólafur Ragnar nýtur mikilla vinsælda og mikils trausts hjá kjósendum en það er einnig kristaltært að hann er afar umdeildur. Undirskriftasöfnunin sem sett hefur verið af stað sýnir það sem og viðbrögð fjölmargra við yfirlýsingu hans í gær á samfélagsmiðlum.
Ekki eru þó allir hrifnir af því að efna til undirskriftasöfnunar á borð við þá sem sett hefur verið í gang. Þannig setti Jóhannes Haukur Jóhannesson, leikari, færslu á Facebook-síðu sína í gær þar sem hann sagði að sér þætti undirskriftasöfnunin bæði ljót og dónaleg. Meira en þúsund manns hafa líkað við statusinn og þá hefur honum verið deilt yfir hundrað sinnum.