Innlent

Veittu 85 þúsund undirskriftum Kára Stefánssonar viðtöku

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Fulltrúar stjórnmálastéttarinnar komu sér fyrir á fremsta bekk í hátíðarsal Íslenskrar erfðagreiningar þegar Kári Stefánsson afhenti stjórnvöldum undirskriftir 85 þúsund Íslendinga. Krafa þeirra er að Alþingi verji árlega 11 prósentum af vergri landsframleiðslu til rekstur heilbrigðiskerfisins en Kári hefur haft veg og vanda af söfnuninni undanfarnar vikur. Þá stigu tónlistarmennirnir Ellen Kristjánsdóttir og Högni Egilsson á stokk.

Fulltrúar allra flokka sendu fulltrúa sinn til að hlýða á hvatningarorð Kára sem messaði yfir hausamótunum á þeim. Hann sagði að krafa þessarar fjölmennustu undirskriftarsöfnunar Íslandssögunnar væri alveg skýr: betur þyrfti að gera í heilbrigðismálum þjóðarinnar.

Kári sagði í samtali við Fréttablaðið í morgun að hann myndi gera hvað hann gæti til að gera heilbrigðismálin að aðalmálinu í næstu kosningum. Endurreisa þyrfti Landsspítalann sem væri illa tækjum búinn og undirmannaður.

Til viðbótar við þetta sagði Kári að greiðsluþátttaka sjúklinga sé gjörsamlega óásættanleg. „Heilbrigðisþjónusta á Íslandi á að vera ókeypis. Við viljum að það sé hlúð að lösnu og meiddu fólki í landinu,“ sagði Kári.

Í erindi sem Kári birti á vefnum endurreisn.is, þar sem undirskriftanna var safnað, kemur fram að Íslendingar eyði því sem nemur 8,7% af vergri landsframleiðslu í heilbrigðismál og það sé langt undir meðaltali á Norðurlöndum. Á síðasta aldarfjórðungi hafi stjórnvöld vannært íslenskt heilbrigðiskerfi, að því marki að það sé ekki lengur þess megnugt að sinna hlutverki sínu sem skyldi.

Heilbrigðisráðherra tók við undirskriftunum.vísir/egill

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×