Guðni segist glaður í bragði í samtali við Vísi hvorki vilja játa því né neita að hann ætli í framboð til forseta. Hann mun þó ætla fram.
Segja má að framboð Guðna sé eitt verst geymda leyndarmál landsins en Guðni tilkynnti í Fésbókarfærslu um helgina að hann hefði komist að niðurstöðu varðandi framboð sitt.
„Ég hef ákveðið að tilkynna svar mitt við spurningunni miklu um forsetaframboð í Salnum í Kópavogi kl. 14:00 á uppstigningardag, fimmtudaginn 5. maí.“

Mikill áhugi virðist vera fyrir framboði Guðna ef marka má skoðanakannanir sem Frjáls verslun annars vegar og Maskína hins vegar framkvæmdu á dögunum. Í könnun Frjálsrar verslunar er afar mjótt á munum en stuðningur Guðna ívið meira. Í könnun Maskínu hafði Ólafur 46 prósent fylgi en Guðni um 25 prósent.
Guðni er ekki sá eini sem legið hefur undir feldi undanfarnar vikur. Berglind Ásgeirsdóttir, sendiherra Íslands í París, íhugar framboð alvarlega. Stuðningsfólk hefur fundað með henni vegna mögulegs framboð hennar.
Eitt af stóru umhugsunarefnunum var hvort Guðni Th. myndi bjóða sig fram enda telja margir að þau Berglind gætu tekið atkvæði hvort af öðru. Því gæti framboð Guðna, sem tilkynnt verður um á fimmtudag, haft töluvert að segja um ákvörðun Berglindar.
Athugulir Facebook-notendur hafa veitt því athygli að vinum Guðna á samfélagsmiðlinum hefur fjölgað um vel á annað þúsund á afar skömmum tíma. Þá vakti færsla Blóðbankans á Facebook í dag mikla athygli þar sem fram kom að Guðni væri mættur til að gefa blóð, sem hann geri reglulega.
„Hann er einn af fáum Íslendingum sem er í AB mínus blóðflokki, en við getum einungis reiknað með því að tæplega hálft prósent Íslendinga séu í AB mínus blóðflokki,“ segir í færslunni.
„AB mínus blóðvökvi er eini blóðvökvinn sem hægt er að nota í ungabörn og því mikilvægt að eiga hann alltaf til.“