Megnið af upphæðinni mun fara í að bæta skaða þeirra 482 þúsund eigenda tveggja lítra Volkswagen-dísilbíla sem forritaðir voru til þess að svindla á útblástursmælingum. Hver eigandi mun fá á bilinu 1-7 þúsund dollara, um 120-850 þúsund króna, í sinn hlut en endanleg upphæð fer eftir aldri hvers bíls.
Lögfræðingar Volkswagen og Umhverfisstofnunar Bandaríkjanna hafa þó enn ekki samið um þau skref sem Volkswagen þarf að taka til þess að laga þá bíla sem um ræðir.
Sáttin sem samið hefur um nær þó ekki til þriggja lítra Volkswagen-dísilbíla en fastlega má gera ráð fyrir að auk þessarar sáttar þurfi þýski bílaframleiðandinn að greiða háar fjárhæðir í sekt til bandarískra yfirvalda vegna málsins.
Sérfræðingar telja að svindl Volkswagen muni að öllum líkindi kosta fyrirtækið um 32,3 milljarða dollara þegar uppi er staðið en talið er að allt að 11 milljón bílar hafi verið útbúnir búnaðinum sem um ræðir.
Í nútíma bílum er ýmis hugbúnaður sem bregst við hinum ýmsu aðstæðum en Volkswagen hannað sérstakan búnað sem þekkti aðstæður í opinberum útblástursmælingum. Samkvæmt EPA, sem er eftirlitsstofnun í Bandaríkjunum, var búnaðurinn afar nákvæmur og engin tilviljun að hann hafði þessi áhrif.
Þegar hugbúnaðurinn skynjaði að bíllinn væri að fara í gegnum mælingu á útblæstri var þar til gerður mengunarvarnabúnaður settur í gang og kom því bíllinn vel út úr öllum opinberum prófum. Þegar bíllinn var hins vegar í daglegri notkun var mengunarvarnabúnaðurinn ekki virkur.
Með því að slökkva á búnaðinum gat Volkswagen náð meira út úr vél bílsins og sparað eldsneyti.