Hornsteinn var lagður að húsi Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum í gær, 19. júní, á réttindadegi kvenna.
Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands, lagði hornsteininn að byggingunni ásamt Jóni Atla Benediktssyni, rektor Háskóla Íslands.
Vigdís sagði í ræðu sinni að hún væri stolt af því að Íslendingar skuli með byggingu hússins geta minnt á ómetanlegt gildi tungumála heimsins með þá visku sem þau geyma.
Byggingin mun hýsa Vigdísarstofnun, alþjóðlega miðstöð tungumála og menningar sem starfar undir merkjum UNESCO.
Í húsinu verður einnig starfrækt fræðslu- og upplifunarsetur auk þess sem þar verður að finna aðstöðu fyrir fyrirlestra og fleira. Jón Atli Benediktsson segir stofnunina skipta gríðarlega miklu máli fyrir rannsóknir og kennslu í erlendum tungumálum.
Vigdísarstofa, tileinkuð Vigdísi Finnbogadóttur, verður þar að auki í húsinu en þar verður hægt að fræðast um líf hennar og störf.
Áætlað er að byggingin verði formlega tekin í notkun vorið 2017.
Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu 20. júní.
