Fótbolti

Maradona í sárum

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Maradona og Higuaín á góðri stundu.
Maradona og Higuaín á góðri stundu. vísir/getty
Diego Maradona, einn besti fótboltamaður sögunnar, er í sárum vegna yfirvofandi sölu Napoli á framherjanum Gonzalo Higuaín til Ítalíumeistara Juventus.

Sky Italia hélt því fram um helgina að Argentínumaðurinn væri búinn að standast læknisskoðun hjá Juventus og semja um kaup og kjör en hann kostar Ítalíumeistarana líklega 79 milljónir punda og verður því langdýrasti leikmaðurinn seldur innan Ítalíu.

Þessi 28 ára gamli framherji skoraði 36 mörk í 35 leikjum fyrir Napoli á síðustu leiktíð og var fyrsti maðurinn sem skorar yfir 30 mörk í Seríu A í áratug.

„Þetta mál með Higuaín særir mig því hann er að fara til Juventus sem er beinn samkeppnisaðili,“ skrifar Maradona á Facebok-síðu sína en Maradona er goðsögn í lifanda lífi hjá Napoli eftir að vinna tvo titla með félaginu á níunda áratug síðustu aldar.

„Við getum samt ekki kennt leikmanninum um. Leikmaðurinn ber bara ábyrgð á sjálfum sér. Það eru þessir feitu viðskiptakettir sem glotta mest í þessu máli. Það hugsar enginn um stuðningsmennina,“ segir Diego Maradona.

Maradona þjálfaði Higuaín frá 2008-2010 þegar hann stýrði argentínska landsliðinu en orðum hans var ekki beint að leikmanninum eins og hann segir. Hann er ósáttur með Aurelio De Laurentiis, forseta Napoli.

„Ég er þreyttur á að segja þetta en í dag skiptir meiru máli að vera góður viðskiptamaður en góður forseti félags. Þetta var ekki svona þegar ég var að spila. Það er slæmt að FIFA heldur áfram að sofa,“ segir Diego Maradona.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×