Guðmundur Guðmundsson og lærisveinar hans í danska landsliðinu í handbolta byrja á tveimur sigrum á Ólympíleikunum í Ríó eftir 31-23 sigur á Túnis í dag.
Danmörk skoraði tvö fyrstu mörkin, en staðan var 6-4 fyrir Danmörku á tíundu mínútu. Það tók Danina tíma að hrista Túnisbúana af sér.
Hægt og rólega fóru þeir að herða tökin og voru komnir í gott forskot þegar flautað var til hálfleiks, en þá leiddu þeir með sex mörkum, 16-10.
Eftirleikurinn varð nokkuð auðveldur fyrir stjörnuprýtt lið Dana, en þeir unnu að lokum átta marka stórsigur, 31-23.
Þeir eru því með fjögur stig eftir fyrstu tvo leikina eftir sigur á Argentínu í fyrsta leiknum.
Danirnir spila næst á fimmtudag, en þá mæta þeir stórliði Króatía. Túnis spilar þá við Katar.
Casper Mortensen skoraði átta mörk fyrir Danina sem og Lasse Svan. Aymen Hammed skoraði fjögur mörk fyrir Túnis.

