Gunnlaugur segir aðstandendur hátíðarinnar afar ánægða og stolta með aðkomu Guðna að hátíðinni en aðstandendur hennar biðu fram yfir kosningar til þess að sjá hvern þau ættu að setja sig í samband við.
„Við leituðum til hans. Það hafði oft komið til tals og okkur fannst í ljósi þess að við höfum verið í góðu samstarfi við ráðherra, borgastjóra og svo framvegis að það vantaði að fá stimpilinn frá forsetaembættinu. Við ákváðum því að bíða með að festa ræðumann þar til eftir kosningar til þess að sjá við hvern við ættum að tala og hvort það myndi ekki takast núna með breytingum á Bessastöðum,“ segir Gunnlaugur og heldur áfram:
„Við settum okkur í samband við Guðna strax daginn eftir kosningar og fengum ótrúlega jákvæð viðbrögð frá honum og mikinn vilja frá skrifstofu forseta til þess að vera í samstarfi með þetta. Þetta var því komið inn í dagbók forseta töluvert áður en hann tók við embættinu.“

Á dagskránni í ár eru um þrjátíu viðburðir og hefst hún líkt og áður sagði í dag og lýkur næstkomandi laugardag þegar sjálf Gleðigangan fer fram sem óumdeilanlega er hápunktur hátíðarhaldanna. Þemað í ár er saga hinsegin fólks.
„Það er dálítið af viðburðum sem eru svolítið tengdir því. Til dæmis söguganga um miðborgina með áherslu á staði, hús og svæði sem tengjast sögunni okkar. Hún er, ótrúlegt en satt, töluvert löng og tengist ýmsum stöðum sem fólk gerir sér ekki grein fyrir að tengjast þessari sögu. Ég þekki söguna ekki almennilega sjálfur og hlakka til að fara í gönguna og heyra hvað borgin okkar hefur að geyma.“
Dagskrá hátíðarinnar má nálgast á vefsíðunni Hinsegindagar.is.
Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 2. júlí.