Um er að ræða tuttugu og sjö tillögur sem snúa að breytingum á skattkerfinu í heild sinni. Meginháhersla verkefnistjórnarinnar var að koma með tillögur sem miða að því að skattkerfið afli nægjanlegra tekna fyrir samneyslu, sé einfalt, gagnsætt og skilverkt. Ennfremur að það sé fyrirsjáanlegt, stöðugt, samkeppnishæft og styðji við hagstjórn landsins.
Að mati dr. Daða Más Kristóferssonar, formanns verkefnisstjórnarinnar, eru helstu breytingarnar að hætt verði samsköttun, breytingar á eftirliti og framkvæmd skattheimtu og að lækka fyrsta skattþrepið verulega.

Dregið úr vægi persónuafsláttar
Daði bendir svo á að unnið sé í átt að hugmynd Alþjóðagjaldeyissjóðsins að breyttu skattkerfi , þar sem dregið sé úr vægi persónuafsláttarins og fyrsta skattþrepið er lækkað verulega.
„Það eru aðrar mikilvægar tillögur, einföldun virðisaukaskattskerfisins, tillögur um þunna eiginfjármögnun sem Ísland þarf að taka á,“ segir Daði.
Í tillögunum eru margar hugmyndir sem snúa að því að auka tekjur af auðlindum, sér í lagi í ferðaþjónustu. Þar má nefna að setja inn bílastæðagjöld á fleiri stöðum, og hækka gistináttaskatt.
„Okkar hlutverk var ekki að fjalla um í hvað tekjurnar fara eða hversu miklum tekjum á að afla heldur hvernig besta leiðin til að afla tekna er. Mörg af nágrannalöndum hafa farið í gegnum sambæranlegar úttektir. Umhverfis- og auðlindagjöld eru hagkvæmari leið til að afla tekna en almennir skattar,“ segir Daði.
Vilja skattleggja mengandi starfsemi
„Við erum með fimm tillögur sem snúa að því, tvær tillögur af gjaldtöku á ferðaþjónustu, veiðigjaldatillögu, orkuskattatillögu og skattlagningu á mengandi starfsemi(kolefnisgjaldstillögu),“ segir Daði.
Verkefnisstjórnin, hóf störf í febrúar á þessu ári, og var skipuð sex sérfræðingum í skattamálum. Ásamt Daða, prófessors í hagfræði og forseta Félagsvísindasviðs Háskóla Íslands, er hún skipuð þeim Völu Valtýsdóttur lögfræðingi, dr. Axel Hall hagfræðingi, Halldóri Benjamín Þorbergssyni hagfræðingi, Elínu Elmu Arthursdóttur frá ríkisskattstjóra og Alexander Edvardssyni löggiltum endurskoðanda. Verkefnisstjórnin hefur þegar kynnt tillögur sínar fyrir Samráðsvettvang um aukina hagsæld. Verkefnisstjórnin var sjálfstæð í vinnu sinni og leitaði ekki álits einstakra meðlima Samráðsvettvangsins meðan á vinnunni stóð.
Tillögurnar verða svo kynntar fyrir stjórnvöldum og verða til umræðu. „Það er ekki eins og þetta séu einu útfærslurnar sem komi til greina. En þetta eru útfærslurnar sem hópurinn telur að séu framkvæmanlegar og geti skilað árangri,“ segir Daði.
Hér má lesa tillögur verkefnishópsins.