Einar rekur þegar bæði veitingastað og heimagistingu í Englendingavík og hefur auk þess verið að gera þar upp annan húsakost, þar með talið pakkhús og gömlu kaupfélagsskrifstofurnar, til að víkka út starfsemina.
Margir þekkja svæðið við Englendingavík, ekki síst barnafólk sem sótt hefur hinn vinsæla Bjössaróló sem orðinn er þekkt kennileiti í Borgarnesi. Einar segir víkina afar skjólsæla, sérstaklega í norðanátt.
„Hér 150 metra frá var fólk á ungmennafélagsmóti um daginn norpandi á meðan það voru krakkar á sundskýlum hjá okkur. Þetta er bara náttúruperla, ekkert annað,“ útskýrir vertinn í víkinni.
„Draumurinn hjá arkitektinum er að vera jafnvel með litla heita potta sem flæðir inn í. En enn þá eru þetta bara hugmyndir sem kviknuðu,“ segir Einar sem kveðst einnig líta til samstarfs við Orkuveituna varðandi heitu pottana og hugsanlega sturtuaðstöðu.
„Þá er hugmyndin að lýsa upp klettavegg ofan við göngustíg sem liggur frá brúnni yfir í Brákarey og gera þetta svolítið flott. Þetta er spurning um að lífga aðeins upp á,“ segir Einar sem kveður ætlunina að fá listamann til að „finna og draga fram mannamyndir“ sem séu þar fyrir í klettunum.
„Vandamálið í ferðaþjónustunni er að útlendingurinn þarf að hafa eitthvað fyrir stafni. Hann þarf eitthvað öðruvísi og eitthvað sem er gaman að skoða,“ undirstrikar Einar.
Ótaldar eru hugmyndir um að koma fyrir gömlum bát við steinbryggjuna til augnayndis og setja upp vefmyndavélar í Litlu-Brákarey sem er friðuð og Einar kveður vera mikla fuglaparadís.
„Hugmyndin er að gera fólki kleift að sjá æðarfuglinn með ungana og að það geti fylgst með flóðinu og fjörunni. Ég held að ferðaþjónusta í Borgarnesi eigi vannýtt tækifæri í fuglunum og strandlengjunni almennt.“
Byggðarráð Borgarbyggðar segir þessar hugmyndir áhugaverðar og hefur sett þær í skoðun.
Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu
