„Nú er rætt um að skora á Guðna Th. Jóhannesson að vísa nýjum búvörusamningum í dóm þjóðarinnar. Ég er enn á því að það sé góð hugmynd. Þegar ég skrifaði greinina datt mér hinsvegar ekki í hug að samningurinn innihéldi ríkisstyrkt dýraníð. Nóg var það samt,“ segir Finnur.
Vísir greindi frá því nú fyrir stundu að þegar hefur verið efnt til undirskriftasöfnunar á netinu vegna málsins og eru nú þegar komnar hartnær þúsund undirskriftir. Finnur skírskotar til þeirra sem kröfðust þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesave. Í áðurnefndri grein segir svo meðal annars:
„Er það fráleit hugmynd að almenningur fái að kjósa um það hvort hann vill verja 180 milljörðum í að viðhalda úreltu landbúnaðarkerfi? Nýr búvörusamningur er á við þrefalda Icesave skuldbindingu miðað við framangreindar forsendur. Börnin okkar borga þennan reikning sem neytendur og í mínum huga er ákvörðun um þennan samning eitt stærsta hagsmunamál íslenskra heimila. Því er eðlilegt að fram fari þjóðaratkvæðagreiðsla um nýjan 180 milljarða búvörusamning.“