Menntun í aska framtíðarinnar Hafliði Helgason skrifar 7. október 2016 07:00 Menntunarstig þjóða ræður miklu um hagsæld þeirra. Hvert sem litið er má sjá að þeim þjóðum vegnar best til lengri tíma þar sem lögð er rækt við þekkingu og menntun. Íslendingar eru þar engin undantekning. Ekki er liðin nema öld frá því að Ísland var í hópi fátækustu þjóða heims. Hraðferð þjóðarinnar upp lista þjóða sem best hafa það í heiminum grundvallaðist meðal annars á háu hlutfalli læsra og að aldamótakynslóðin notaði aukna velsæld til að koma börnum sínum til mennta. Í auglýsingu sem birtist hér í blaðinu í gær lýsa rektorar háskóla landsins þungum áhyggjum af málefnum háskólanna í ljósi fjármálaáætlunar ríkisins til ársins 2021. Í áætlun ríkisins er gert ráð fyrir vaxandi fjárfestingu í innviðum, en háskólarnir eru skildir eftir. Taka má undir þessar áhyggjur. Fáar innviðafjárfestingar gefa betri arð en efling háskóla og rannsókna. Við erum nú þegar eftirbátar nágrannaþjóða í þessum efnum. Háskóli Íslands hefur færst ofar á lista vegna aukinna birtinga vísindagreina, en þann árangur má að miklu leyti þakka samstarfi skólans við þekkingarfyrirtækið Íslenska erfðagreiningu. Rannsóknir og þekkingaröflun skilar sér á mislöngum tíma inn í verðmætasköpun samfélagsins. Vaxandi skilningur á þessari staðreynd er milli atvinnulífsins og háskólasamfélagsins. Tækifæri á grunni mannauðs og þekkingar eru óþrjótandi ef rétt er á málum haldið. Í raun ætti allt okkar umhverfi að stuðla að því að efla þekkingu og færni og skapa grundvöll fyrir slíka verðmætasköpun. Það ætti að vera keppikefli okkar að skapa umhverfi sem örvar og laðar að ólíka þekkingu með skynsamlegri menntastefnu, skattaumhverfi og samfélagsgerð sem eflir frumkvæði og dug. Iðnbyltingin breytti atvinnuháttum og einföld og slítandi störf voru leyst af hólmi af vélum. Lífskjör breyttust hratt í kjölfarið. Í dag erum við í miðju annarrar byltingar sem grundvallast á tölvutækni, gervigreind og vélmennavæðingu. Örlög stétta eins og bílstjóra kunna að verða svipuð og blýsetjara í prentverki áður en langt um líður. Hlutfall starfa sem krefjast skapandi hugsunar, innsæis og mikillar þekkingar mun hækka verulega í kjölfar þeirrar þróunar. Menntun og ekki síst æðri menntun mun því líklega skipta enn meira máli til framtíðar en hingað til. Hvert ár sem við sóum með því að hlúa ekki að háskóla- og vísindasamfélaginu getur því reynst okkur dýrt, enda þótt reikningurinn fyrir vanræksluna verði ekki sendur á stjórnmálamenn samtíðarinnar. Dægurþras stundarinnar vegur oftast þyngra í stjórnmálabaráttunni en skýr og samkvæm framtíðarsýn. Þar liggur kannski hundurinn grafinn.Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Hafliði Helgason Mest lesið Akranes hefur vaxið hratt – nú er tími til að hlúa að fólkinu Liv Åse Skarstad Skoðun Tala aldrei um annað en vextina Hjörtur J. Guðmundsson Skoðun Er íslenskan sjálfsagt mál? Logi Einarsson Skoðun Stefán Einar og helfarirnar Hjálmtýr Heiðdal Skoðun 109 milljarða kostnaður sem fyrirtækin greiða ekki Sigurpáll Ingibergsson Skoðun 96,7 prósent spila án vandkvæða Sigurður G. Guðjónsson Skoðun Hver ákveður hver tilheyrir – og hvenær? Jasmina Vajzović Skoðun Er kominn skrekkur í fullorðna fólkið? Steinar Bragi Sigurjónsson Skoðun Þeytivinda í sundlaugina og börnin að heiman Guðmundur Ari Sigurjónsson Skoðun Smiðurinn, spegillinn og brunarústirnar Davíð Bergmann Skoðun
Menntunarstig þjóða ræður miklu um hagsæld þeirra. Hvert sem litið er má sjá að þeim þjóðum vegnar best til lengri tíma þar sem lögð er rækt við þekkingu og menntun. Íslendingar eru þar engin undantekning. Ekki er liðin nema öld frá því að Ísland var í hópi fátækustu þjóða heims. Hraðferð þjóðarinnar upp lista þjóða sem best hafa það í heiminum grundvallaðist meðal annars á háu hlutfalli læsra og að aldamótakynslóðin notaði aukna velsæld til að koma börnum sínum til mennta. Í auglýsingu sem birtist hér í blaðinu í gær lýsa rektorar háskóla landsins þungum áhyggjum af málefnum háskólanna í ljósi fjármálaáætlunar ríkisins til ársins 2021. Í áætlun ríkisins er gert ráð fyrir vaxandi fjárfestingu í innviðum, en háskólarnir eru skildir eftir. Taka má undir þessar áhyggjur. Fáar innviðafjárfestingar gefa betri arð en efling háskóla og rannsókna. Við erum nú þegar eftirbátar nágrannaþjóða í þessum efnum. Háskóli Íslands hefur færst ofar á lista vegna aukinna birtinga vísindagreina, en þann árangur má að miklu leyti þakka samstarfi skólans við þekkingarfyrirtækið Íslenska erfðagreiningu. Rannsóknir og þekkingaröflun skilar sér á mislöngum tíma inn í verðmætasköpun samfélagsins. Vaxandi skilningur á þessari staðreynd er milli atvinnulífsins og háskólasamfélagsins. Tækifæri á grunni mannauðs og þekkingar eru óþrjótandi ef rétt er á málum haldið. Í raun ætti allt okkar umhverfi að stuðla að því að efla þekkingu og færni og skapa grundvöll fyrir slíka verðmætasköpun. Það ætti að vera keppikefli okkar að skapa umhverfi sem örvar og laðar að ólíka þekkingu með skynsamlegri menntastefnu, skattaumhverfi og samfélagsgerð sem eflir frumkvæði og dug. Iðnbyltingin breytti atvinnuháttum og einföld og slítandi störf voru leyst af hólmi af vélum. Lífskjör breyttust hratt í kjölfarið. Í dag erum við í miðju annarrar byltingar sem grundvallast á tölvutækni, gervigreind og vélmennavæðingu. Örlög stétta eins og bílstjóra kunna að verða svipuð og blýsetjara í prentverki áður en langt um líður. Hlutfall starfa sem krefjast skapandi hugsunar, innsæis og mikillar þekkingar mun hækka verulega í kjölfar þeirrar þróunar. Menntun og ekki síst æðri menntun mun því líklega skipta enn meira máli til framtíðar en hingað til. Hvert ár sem við sóum með því að hlúa ekki að háskóla- og vísindasamfélaginu getur því reynst okkur dýrt, enda þótt reikningurinn fyrir vanræksluna verði ekki sendur á stjórnmálamenn samtíðarinnar. Dægurþras stundarinnar vegur oftast þyngra í stjórnmálabaráttunni en skýr og samkvæm framtíðarsýn. Þar liggur kannski hundurinn grafinn.Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu