Andy Murray fagnaði sínum fertugasta og fyrsta titli á ferlinum í nótt þegar hann sigraði á Shanghai Masters mótinu.
Hinn skoski Murray er í öðru sæti heimslistans og mætti Spánverjanum Roberto Bautista Agut í úrslitaleiknum í Shanghai. Agut, sem er í 15.sæti heimslistans, lagði Novak Djokovic í undanúrslitum en Djokovic hefur verið konungur tennisins undanfarin ár.
Fyrsta settið var jafnt og spennandi en Murray vann á endanum 7-6 eftir að hafa unnið upphækkunina 7-1. Annað settið var ekki eins jafnt og það fyrsta og komst Murray í 5-1 áður en hann kláraði síðasta leikinn og þar með settið 6-1.
Gríðarlegar fastar uppgjafir og örugg framhandarskot lögðu grunninn fyrir Murray sem þurfti töluvert að hafa fyrir sigrinum í fyrsta settinu þar sem Agut spilaði af sama krafti og þegar hann lagði Djokovic í undanúrslitaleiknum í fyrrinótt.
Leikurinn er sá tíundi í röð sem Murray vinnur en hann stóð einnig uppi sem sigurvegari á Opna Kínverska mótinu í Peking um síðustu helgi. Murray er nú aðeins 915 stigum á eftir Djokovic á heimslistanum og hefur minnkað bilið á Serbann undanfarnar vikur.
Eins og áður segir þá var titillinn sá fertugasti og fyrsti í röðinni hjá Murray sem á þó enn töluvert í land með að ná Djokovic í fjölda titla. Serbinn hefur alls unnið 66 titla á ferlinum.
