Gerðar hafa verið tvær óháðar rannsóknir á starfsemi ítalska skurðlæknisins Paolo Macchiarini á Karolinska sjúkrahúsinu í Stokkhólmi. Þróaði hann barkaígræðslu sem felst í því að skipta út barka fólks með gervibarka úr plasti. Hann græddi plastbarka í átta sjúklinga en sex þeirra eru látnir í dag og fátt sem bendir til þess að aðgerðin hafi haft nokkur áhrif.
Hann framkvæmdi meðal annars plastbarkaígræðslu á Andemariam Beyene, Erítreumanni sem stundaði nám við Háskóla Íslands þegar hann greindist með krabbamein í hálsi. Andemariam lést um tveimur og hálfu ári eftir aðgerðina en að henni komu tvær íslenskir læknar, Tómas og Óskar Einarsson.
Nefndarmenn eru þrír. Í tilkynningu frá HÍ og LSH segir að þeir starfa allir utan Háskóla Íslands og Landspítalans og hafi víðtæka reynslu og þekkingu af vísindastarfi á sviði læknisfræði, lögfræði og siðfræði, auk reynslu af störfum í sérstökum rannsóknarnefndum.

María Sigurjónsdóttir, sérfræðingur í geðlækningum við réttargeðdeildina í Dikemark í Noregi. Auk geðlæknisstarfa er María með B.A. gráðu í heimspeki. Hún hefur unnið með ýmis mál innan læknisfræðilegrar siðfræði og framkvæmt réttargeðmat í fjölmörgum málum.
Georg Bjarnason, krabbameinslæknir og vísindamaður við Sunnybrook-stofnunina í Toronto í Kanada. Georg er alþjóðlega virtur vísindamaður á sínu sviði og hefur mikla reynslu af krabbameinslækningum og vísindarannsóknum þeim tengdum.
Rannsóknarnefndinni er ætlað að veita rökstutt álit á því hvort ákvarðanir íslenskra heilbrigðisstarfsmanna á LSH í tengslum við málið hafi verið í samræmi við lög, reglur og verkferla.
Einnig er hlutverk nefndarinnar að rannsaka lagalegan og siðferðilegan grundvöll fyrir þátttöku íslenskra lækna í ritun og birtingu greinar um efnið í vísindatímaritinu Lancet og fyrir málþingi sem var haldið í HÍ sumarið 2012.
Hlutverk nefndarinnar er að rýna niðurstöður sænskra rannsókna sem framkvæmdar hafa verið, ræða við skýrsluhöfunda og skoða sérstaklega aðkomu íslenskra stofnana og/eða starfsmanna þeirra að málinu.