Menning

Fyrsta dæmi af skrifandi alþýðukonu er frá 17. öld

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
"Þó konur hafi ekki fengið formlega menntun innan skóla þá má í bókum kvenna finna efni sem tengist skólunum,“ segir Guðrún sem hefur nýlega gefið út bók um rannsóknir sínar.
"Þó konur hafi ekki fengið formlega menntun innan skóla þá má í bókum kvenna finna efni sem tengist skólunum,“ segir Guðrún sem hefur nýlega gefið út bók um rannsóknir sínar. Vísir/Anton Brink
Lengi framan af stóð konum ekki til boða að verma skólabekki en Guðrún Ingólfsdóttir bókmenntafræðingur ætlar að halda erindi í dag um bókmenningu íslenskra kvenna á miðöldum. Fyrirlesturinn er í Lögbergi í Háskóla Íslands og hefst klukkan 16.30.

Guðrún, hvað áttu við með bókmenningu? „Þegar talað er um bókmenningu á þessum tíma þá tengist það fyrst og fremst handritamenningu. Þó prentsmiðja væri í landinu þá hefur ekki varðveist nema ein prentbók úr eigu konu fyrir 1730, mér vitanlega.“

Kunnu konur yfirleitt að lesa og skrifa? „Já, það sem ég var fyrst og fremst að gera var að reyna að fá innsýn í bókmenningu kvenna frá miðöldum til ársins 1730. Ég leitaði að öllu sem ég gat fundið um bókaiðju kvenna frá þessum tíma hvort sem það voru handrit sem þær áttu eða handrit með þeirra hendi.

Ég fór líka í skáldaðar og sögulegar heimildir og reyndi að finna dæmi um bóklega menntun kvenna. Framan af voru það fyrst og fremst yfirstéttarkonur sem fengu hana. Það er ekki fyrr en á 17. öld sem ég fann dæmi af læsri og skrifandi alþýðukonu. Það er í sjálfu sér mjög merkilegt því að lög um lestrarkennslu tóku ekki gildi fyrr en um miðja 18. öld og lög um skriftarkennslu árið 1880.“



Af hverju stoppar þú við 1730? „Það ár deyr Árni Magnússon handritasafnari og það urðu ákveðin vatnaskil eftir söfnun hans. Ég sá þess hreinlega stað í bókaeign kvenna.“

Hvers konar bækur áttu konur? „Bækur kvenna voru fjölbreyttar að efni og erfitt að lýsa þeim í stuttu viðtali. Sumpart endurspeglar þó bókaeign kvenna eitt meginhlutverk þeirra sem húsmæðra og mæðra, en þær sáu oft um menntun barna á fyrstu stigum. Og þó að þær hafi ekki fengið formlega menntun innan skóla þá má í bókum kvenna finna efni sem tengist skólunum.“

Fyrirlesturinn er ókeypis og allir eru velkomnir á hann meðan húsrúm leyfir.



Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 1. nóvember 2016.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×