Erlent

Trump ætlar að vísa allt að þremur milljónum úr landi

Birgir Olgeirsson skrifar
Donald Trump, nýkjörinn forseti Bandaríkjanna, áætlar að allt að þremur milljónum ólöglegra innflytjenda verði ýmist vísað úr landi eða fangelsaðir eftir að hann tekur við völdum í janúar næstkomandi.

Þetta sagði Trump í viðtali við CBS sjónvarpsstöðina en þetta var fyrsta stóra viðtalið sem hann veitir við bandarískan fjölmiðil eftir að hafa unnið forsetakosningarnar.

Trump sagðist ætla að einblína á innflytjendur sem eru á sakaskrá, þar á meðal innflytjendur sem tilheyra glæpagengjum og eiturlyfjasölum.

Hann staðfesti einnig að hann mun halda sig við það loforð að reisa vegg á landamærum Mexíkó og Bandaríkjanna, en að þessi landamæratálmi yrði að einhverjum hluta girðing en ekki veggur.

Trump mun taka við völdum af Barack Obama 20. janúar næstkomandi.

Hann sagði að talan yfir þá innflytjendur, sem hann mun annað hvort fangelsa eða vísa úr landi, geti numið frá tveimur til þremur milljónum.

Greint er frá því á vef fréttastofu breska ríkisútvarpsins BBC að ef Trump ætlar að ná þeirri tölu þá sé ekki nóg fyrir hann að einblína á meðlimi glæpagengja og fíkniefnasala, hann gæti þurft að grípa til þess að vísa úr landi innflytjendum sem eru löglega í Bandaríkjunum en þó á sakaskrá.

BBC segir um ellefu milljónir óskráðra innflytjenda í Bandaríkjunum og að stór hluti þeirra sé frá Mexíkó.


Tengdar fréttir

Ríkisstjórn Obama gefst ekki upp í loftslagsmálum

John Kerry utanríkisráðherra Bandaríkjanna sagði að ríkisstjórn Barack Obama Bandaríkjaforseta muni nýta allar leiðir til að innleiða Parísarsáttmálann sem fyrst áður en Donald Trump tekur við sem forseti Bandaríkjanna




Fleiri fréttir

Sjá meira


×