Frammi á gangi Magnús Guðmundsson skrifar 19. desember 2016 07:00 Fyrir aðeins örfáum vikum virtist ekki íslensk sála efast um að eitt brýnasta verk stjórnvalda væri að endurreisa heilbrigðiskerfið. Endurreisa er einmitt orðið sem hvað flestir notuðu, vegna þess að kerfið var einu sinni mun betra. En lengi hefur heilbrigðiskerfið fundið fyrir niðurskurðarhníf misaðþrengdra stjórnvalda. Afleiðingin er að aðbúnaður sjúklinga er ekki viðunandi og starfsfólk hefur á stundum verið að niðurlotum komið af völdum álags. Tómas Guðbjartsson, hjartalæknir á Landspítalanum, sýndi okkur um helgina ástandið með því að birta myndir á Facebook-síðu sinni af ganga- og kaffistofuinnlögnum á Landspítalanum. Fólk á ekki að þurfa að takast á við veikindi sín við þessar aðstæður. Fyrr á árinu fékk þorri þjóðarinnar nóg af þessu ástandi og kallaði eftir endurreisn. Kallaði eftir því að þeir sem glíma við erfið veikindi njóti sómasamlegrar þjónustu og að þeir sem hana veita geri það við frambærilegar aðstæður. Þetta endurspeglaðist í áherslum flokkanna fyrir kosningar þar sem ekki stóð á yfirlýsingum þess efnis hversu brýnt væri að endurreisa heilbrigðiskerfið og að það væri forgangsmál hvers flokksins á fætur öðrum. Það er því engin furða að Páli Matthíassyni og öðrum forsvarsmönnum Landspítalans hafi verið brugðið við það að berja fjármálafrumvarpið augum. Að sögn Páls vinnur framkvæmdastjórn Landspítalans nú að því að aðlaga rekstur spítalans frumvarpinu en af því leiðir aðhaldskröfu upp á 5,3 milljarða króna. Þeir tæplega fjögurra milljarða viðbótarfjármunir sem frumvarpið gerir ráð fyrir fara að mestu í launa- og verðlagsbætur en það hlýtur stjórnvöldum að hafa verið ljóst þar sem þau voru aðili að viðkomandi samningum. Afleiðingin fyrir spítalann stefnir í að verða uppsagnir og skert starfsemi. Afleiðingin fyrir sjúklingana er því enn takmarkaðri þjónusta. Fyrir skömmu ákvað kjararáð að hækka laun þingmanna um 45% og að auki er fyrirhugað að bæta aðstöðu þeirra umtalsvert með nýrri skrifstofubyggingu. Sitt sýnist hverjum en það eitt er víst að það hefur ekki hvarflað að nokkrum manni að tengja þetta við rekstrarumhverfi Alþingis með því að fækka starfsmönnum stofnunarinnar. Með sama hætti eru bætt kjör ákveðinna hópa á meðal starfsfólks Landspítalans ekki sú endurreisn heilbrigðiskerfisins sem þjóðin hefur kallað eftir. Endurreisn heilbrigðiskerfisins snýst nefnilega fyrst og fremst um notendur þess. Það fólk sem sumt hvert glímir við erfið og alvarleg veikindi en þarf engu að síður að liggja á göngum spítalans eða þola óásættanlega bið eftir aðgerðum. Í ljósi yfirlýsinga um endurreisn íslenska heilbrigðiskerfisins fyrir kosningar og stöðunnar við ríkisstjórnarmyndun gefst hverjum og einum á þingi því einstakt tækifæri til þess að axla ábyrgð á loforðunum. Tækifæri til þess að hefja endurreisnina strax við afgreiðslu fjárlagafrumvarpsins og hafa notendur kerfisins í forgangi. Hjá svo ríkri þjóð sem þetta land byggir ætti enginn að þurfa að liggja veikur frammi á gangi.Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 19. desember. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Alþingi Magnús Guðmundsson Mest lesið Sagan að endurtaka sig í beinni Ingibjörg Þóra Haraldsdóttir Skoðun Er leikskólinn ekki meira virði? Bryndís Björk Eyþórsdóttir Skoðun Halldór 25.01.2025 Halldór Hin heimtufreka kennarastétt Áslaug Pálsdóttir Ragnheiðardóttir Skoðun Hinn vandrataði vegur að starfslokum Ástríður Þórey Jónsdóttir Skoðun Að hengja bakara fyrir smið Rakel Linda Kristjánsdóttir Skoðun Þjóðarátak í umönnun eldra fólks Einar Magnússon ,Þráinn Þorvaldsson Skoðun Þingmaðurinn og spillingin á Veðurstofunni Sigurgeir Bárðarson Skoðun Hvers virði eru vísindi? Heiða María Sigurðardóttir,Erna Magnúsdóttir Skoðun Opið bréf til undirbúningskjörbréfanefndar Alþingis Jóhann Friðrik Friðriksson, Skoðun
Fyrir aðeins örfáum vikum virtist ekki íslensk sála efast um að eitt brýnasta verk stjórnvalda væri að endurreisa heilbrigðiskerfið. Endurreisa er einmitt orðið sem hvað flestir notuðu, vegna þess að kerfið var einu sinni mun betra. En lengi hefur heilbrigðiskerfið fundið fyrir niðurskurðarhníf misaðþrengdra stjórnvalda. Afleiðingin er að aðbúnaður sjúklinga er ekki viðunandi og starfsfólk hefur á stundum verið að niðurlotum komið af völdum álags. Tómas Guðbjartsson, hjartalæknir á Landspítalanum, sýndi okkur um helgina ástandið með því að birta myndir á Facebook-síðu sinni af ganga- og kaffistofuinnlögnum á Landspítalanum. Fólk á ekki að þurfa að takast á við veikindi sín við þessar aðstæður. Fyrr á árinu fékk þorri þjóðarinnar nóg af þessu ástandi og kallaði eftir endurreisn. Kallaði eftir því að þeir sem glíma við erfið veikindi njóti sómasamlegrar þjónustu og að þeir sem hana veita geri það við frambærilegar aðstæður. Þetta endurspeglaðist í áherslum flokkanna fyrir kosningar þar sem ekki stóð á yfirlýsingum þess efnis hversu brýnt væri að endurreisa heilbrigðiskerfið og að það væri forgangsmál hvers flokksins á fætur öðrum. Það er því engin furða að Páli Matthíassyni og öðrum forsvarsmönnum Landspítalans hafi verið brugðið við það að berja fjármálafrumvarpið augum. Að sögn Páls vinnur framkvæmdastjórn Landspítalans nú að því að aðlaga rekstur spítalans frumvarpinu en af því leiðir aðhaldskröfu upp á 5,3 milljarða króna. Þeir tæplega fjögurra milljarða viðbótarfjármunir sem frumvarpið gerir ráð fyrir fara að mestu í launa- og verðlagsbætur en það hlýtur stjórnvöldum að hafa verið ljóst þar sem þau voru aðili að viðkomandi samningum. Afleiðingin fyrir spítalann stefnir í að verða uppsagnir og skert starfsemi. Afleiðingin fyrir sjúklingana er því enn takmarkaðri þjónusta. Fyrir skömmu ákvað kjararáð að hækka laun þingmanna um 45% og að auki er fyrirhugað að bæta aðstöðu þeirra umtalsvert með nýrri skrifstofubyggingu. Sitt sýnist hverjum en það eitt er víst að það hefur ekki hvarflað að nokkrum manni að tengja þetta við rekstrarumhverfi Alþingis með því að fækka starfsmönnum stofnunarinnar. Með sama hætti eru bætt kjör ákveðinna hópa á meðal starfsfólks Landspítalans ekki sú endurreisn heilbrigðiskerfisins sem þjóðin hefur kallað eftir. Endurreisn heilbrigðiskerfisins snýst nefnilega fyrst og fremst um notendur þess. Það fólk sem sumt hvert glímir við erfið og alvarleg veikindi en þarf engu að síður að liggja á göngum spítalans eða þola óásættanlega bið eftir aðgerðum. Í ljósi yfirlýsinga um endurreisn íslenska heilbrigðiskerfisins fyrir kosningar og stöðunnar við ríkisstjórnarmyndun gefst hverjum og einum á þingi því einstakt tækifæri til þess að axla ábyrgð á loforðunum. Tækifæri til þess að hefja endurreisnina strax við afgreiðslu fjárlagafrumvarpsins og hafa notendur kerfisins í forgangi. Hjá svo ríkri þjóð sem þetta land byggir ætti enginn að þurfa að liggja veikur frammi á gangi.Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 19. desember.