Erlent

Vanity Fair stórgræðir á móðguðum Trump

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Donald Trump og Graydon Carter.
Donald Trump og Graydon Carter. Vísir/Getty
Tímaritið Vanity Fair virðist hafa stórgrætt á því að Donald Trump, verðandi Bandaríkjaforseti, hafi hjólað í þau.

Trump tók til Twitter á fimmtudag til að skammast yfir tímaritinu. Tilefni tístsins var umfjöllun VF um veitingastaðinn Trump Grill sem staðsettur er í kjallara Trump Tower. Þar sagði gagnrýnandi Vanity Fair að Trump Grill væri mögulega versta veitingahús Bandaríkjanna.

Trump sagði lestrartölur tímaritsins vera mjög slæmar og sagði tímaritið vera í „miklum vandræðum, dautt“. Þá sagði hann ritstjóra VF vera án hæfileika og að honum yrði bráðum vikið frá störfum.

Sjá einnig: Hörundsár Trump í hár við Vanity Fair vegna umsagnar um veitingastað

Eftir útspil Trump bættust 10 þúsund manns í fylgjendahóp VF á Twitter og tímaritið setti sölumet í áskriftum. Þrettán þúsund manns keyptu áskrift að tímaritinu á einum degi, sem er hundrað sinnum meira en gengur og gerist á einum sólarhring. 

Uppruna andúðar Trump á Vanity Fair má rekja til þess að Graydon Carter, ritstjóri tímaritsins til langs tíma, skrifaði á árum áður greinar í tímaritið Spy þar sem hann fór hörðum orðum um Trump og sagði hann meðal annars að Trump væri dóni og með stutta putta.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×