Erlent

Trump fær Zinke í embætti innanríkisráðherra

Atli Ísleifsson skrifar
Ryan Zinke er þingmaður Montana-ríkis í fulltrúadeild Bandaríkjaþings.
Ryan Zinke er þingmaður Montana-ríkis í fulltrúadeild Bandaríkjaþings. Vísir/AFP
Donald Trump hefur fengið fyrrverandi hermann sérsveitar bandaríska flotans, Navy SEAL, Ryan Zinke, til að taka að sér að gegna embætti innanríkisráðherra í ríkisstjórn sinni.

Hinn 55 ára Zinke hefur verið þingmaður Montanaríkis í fulltrúadeild Bandaríkjaþings í tæp tvö ár, en átti sæti í öldungadeild Montanaríkis á árunum 2009 til 2011.

Á árunum 1986 til 2008 starfaði hann í sérsveit bandaríska flotans, og undir lok starfstímans var hann yfirmaður 3.500 sérsveitarmanna í Írak.

Á þingi hefur Zinke stutt tillögur um að fjölga bandarískum hermönnum í Írak til að styðja baráttuna gegn hryðjuverkasamtökunum ISIS. Þá hefur hann greitt atkvæði gegn lagatillögum um að takmarka vinnslu og borun eftir olíu og gasi á norðurslóðum.

Sem innanríkisráðherra mun Zinke fara með málefni sem snúa meðal annars að eignum og auðlindum bandarísku alríkisstjórnarinnar, samband við frumbyggja, borgaralegum réttindum og ýmislegt fleira. Ráðuneytið hefur því oft verið kallað „ráðuneytið fyrir allt annað“.

Ólíkt því sem gerist í mörgum öðrum ríkjum falla málefni lögreglu ekki undir bandaríska innanríkisráðuneytið.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×