Fótbolti

Geir telur að hann hefði unnið formannskjörið: „Góðir stjórnunarhættir að stíga til hliðar“

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Geir Þorsteinsson, fráfarandi formaður KSÍ, kveðst hafa hugsað það nokkuð lengi hvort að nú væri rétti tíminn fyrir hann að stíga til hliðar. Hann notaði tímann yfir jól og áramót til þess að fara yfir málin en í nóvember lýsti hann því yfir að hann ætlaði áfram að gefa kost á sér sem formaður.

Rætt verður við Geir í útvarpsþættinum Akraborgin sem hefst á X-inu núna klukkan 16 en þar segir Geir meðal annars að ákvörðunin um að gefa ekki áfram kost á sér hafi ekki verið auðveld.

„Það er hins vegar ákall eftir því að hleypa öðrum að og það er mikilvægt að gera það og það þarf að gera það,“ segir Geir. Aðspurður hvort formenn einhverra knattspyrnufélaga hafi hvatt hann til þess að stíga til hliðar segir hann svo ekki vera.

„Ég tók þessa ákvörðun ekki út frá því heldur er bara svona almennt ákall um um breytingar í stjórn. Það þarf auðvitað að vera velta í því á æðsta stað í knattspyrnusambandinu bara eins og í knattspyrnuhreyfingunni í heiminum. Það er búið að vera mikið ákall um það. Þess vegna fór ég að hugsa að það væru góðir stjórnunarhættir að stíga til hliðar og hleypa öðrum að og opna brautina fyrir ný framboð og nýjan formann,“ segir Geir.

Þá telur hann sig hafa getað unnið formannskjörið.

„Ég er alveg fullviss um það að ég hefði sigrað kjörið, þetta snerist ekki um það.“

Uppfært klukkan 16:32: Hlusta má á viðtalið við Geir í heild sinni í spilaranum hér að ofan.




Tengdar fréttir

Geir gefur ekki kost á sér til formanns KSÍ

Geir Þorsteinsson, formaður KSÍ, hefur ákveðið að gefa ekki áfram kost á sér til formanns KSÍ. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá honum sem er má sjá í heild sinni hér að neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×