Innlent

Sigurður telur stjórnarandstöðu geta fengið fjóra nefndarformenn

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Sigurður Ingi Jóhannsson segir það hafa verið skemmtilegt að gegna ráðherrastarfi.
Sigurður Ingi Jóhannsson segir það hafa verið skemmtilegt að gegna ráðherrastarfi. vísir/stefán
Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, segir að skoða þurfi vel hvernig formennska í fastanefndum skiptist milli stjórnar og stjórnarandstöðu.

Sigurður Ingi segir að miðað við þingskaparlög geti stjórnarandstaðan á Alþingi vænst þess að eiga formenn í fjórum fastanefndum af átta. Eðlilegt sé að fulltrúi Framsóknarflokksins eigi formann í nefnd.

Sigurður Ingi segist hafa tekið eftir því að ný stjórn hafi lýst áhuga á að stunda önnur vinnubrögð en þau sem lengst hafa þekkst í þinginu. Og vinnubrögðin sem voru viðhöfð í aðdraganda jóla, þegar fjárlagafrumvarpið var samþykkt, verði höfð til hliðsjónar þegar horft er til þess sem koma skal. „En við höfum líka tekið eftir því að menn hafa verið búnir að raða ýmsu niður án þess að þeir hafi átt mikið samtal við okkur. Við væntum þess að það verði einhver breyting á því. Vegna þess að vilji menn sjá breytt vinnubrögð þá verða þeir að gera það á borði en ekki bara í orði,“ segir hann.

Sigurður Ingi segist hafa fundað með forystumönnum VG, Pírata og Samfylkingarinnar um það hvernig störfum stjórnarandstöðunnar verði háttað á kjörtímabilinu. „Við höfum átt einn fund og verið í samskiptum,“ segir hann.

Sigurður Ingi mætti til síns síðasta ríkisráðsfundar á Bessastöðum í gær. Hann viðurkenndi, við það tilefni, að það væri eftirsjá að ráðherrastarfinu. „Já, klárlega, það er skemmtilegt og spennandi starf og gaman að kljást við það.“ 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×