Erlent

Mannfall í atlögu Bandaríkjanna gegn al-Qaeda

Samúel Karl Ólason skrifar
Bandarískar Apache árásarþyrlur munu hafa farið á undan hermönnunum og skotið eldflaugum að þorpinu sem árásin var gerð á.
Bandarískar Apache árásarþyrlur munu hafa farið á undan hermönnunum og skotið eldflaugum að þorpinu sem árásin var gerð á. Vísir/AFP
Bandarískir hermenn réðust til atlögu gegn meðlimum al-Qaeda í Jemen í nótt. Herinn segir minnst 14 vígamenn hafa látið lífið og einn bandarískur hermaður hafi einnig verið felldur í bardaga. Embættismenn í Jemen segja hins vegar að minnst 41 vígamaður hafi fallið og 16 almennir borgarar, átta konur og átta börn.

Þrír hátt settir leiðtogar al-Qaeda eru sagðir hafa verið felldir í árásinni. Árásarþyrlur voru fyrstar á vettvang og skutu sprengjum á þorp í Jemen. Síðan fylgdu hermenn eftir.

Þrír bandarískir hermenn særðust í átökunum sem stóðu yfir í um 45 mínútur. Ein af þyrlum sveitarinnar brotlenti svo á leið til baka og slasaðist einn hermaður til viðbótar. Ekki var hægt að fljúga þyrlunni áfram og var hún sprengd í loft upp.

Talið er að tveir menn hafi verið fluttir lifandi á brott, en embættismenn í Jemen segja skotmark hermannanna hafa verið Qassim al-Rimi.

Um er að ræða fyrsta bandaríska hermanninn sem deyr eftir að Donald Trump tók við embætti forseta.

Blaðamenn AP fréttaveitunnar ræddu við meðlim al-Qaeda sem lýsti árásinni sem „fjöldamorði“ og sagði einnig að konur og börn hefðu látið lífið.

Hernaðaryfirvöld í Bandaríkjunum segja að hermennirnir hafi fundið upplýsingar í árásinni, sem muni líklega veita yfirvöldum innsýn varðandi skipulagningu mögulegra hryðjuverkaárása í framtíðinni.

Uppfært: Fyrirsögn fréttarinnar var breytt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×