Fótbolti

Landsleikurinn við Ísland fer fram í skugga Trump

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Juan Carlos Osorio á blaðamannafundi á síðasta ári.
Juan Carlos Osorio á blaðamannafundi á síðasta ári. Vísir/AFP
Juan Carlos Osorio, landsliðsþjálfari Mexíkó, segir að íþróttir eigi ekkert skylt við stjórnmál. Þetta sagði hann fyrir leik sinna manna gegn Íslandi en leikurinn fer fram í Las Vegas í nótt.

Spenna hefur ríkt á milli Bandaríkjanna og Mexíkó eftir að Donald Trump var kjörinn Bandaríkjaforseti en hann hyggst reisa vegg eftir landamærum Bandaríkjanna við Mexíkó.

„Ég held að það sem komi mér enn mest á óvart er að við fáum hvergi meiri stuðning við landsliðið okkar en í Bandaríkjunum,“ sagði Osorio á blaðamannafundi fyrir leikinn í nótt.

„Vonandi verður það tilfellið aftur á morgun. Bara til að sýna að knattspyrna eða aðrar íþróttir eigi ekkert skylt við stjórnmál eða neitt annað.“

Landslið Mexíkó spilar mjög oft í Bandaríkjunum. Í fyrra spilaði liðið tíu sinnum norðan við landamærin en aðeins tvisvar í Mexíkó. Á þessu ári er fyrirhugað að spila vináttulandsleiki í New York og Los Angeles.

„Við komum til Bandaríkjanna til að vera með fólkinu og færa þeim sem hafa unnið hér í langan tíma ánægju,“ sagði Santiago Banos, yfirmaður íþróttamála hjá Mexíkó.

Leikur Mexíkó og Íslands hefst klukkan 03.00 í nótt og verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×