Körfubolti

Draymond Green líkir eiganda New York Knicks við þrælahaldara

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
James Dolan og Draymond Green.
James Dolan og Draymond Green. Vísir/Samsett/Getty
Draymond Green, leikmaður Golden State Warriors, er þekktur fyrir að láta allt flakka og nú hefur hann blandað sér af krafti inn í deilur Charles Oakley og eiganda New York Knicks, James Dolan.

„Þegar ég græði á þér þá allt í góðu,“ byrjaði Draymond Green í hlaðvarpsþætti sínum "Dray Day" og hélt síðan áfram: „Ef þú ert að gera eitthvað á minn hlut eða að tala á móti mínu félagi þá er ekki allt í góðu lengur. Þetta er hugarfar þrælahaldara. Þessi maður hugsar eins og þrælahaldari. Þetta er fáránlegt,“ sagði Draymond Green. ESPN segir frá.

Charles Oakley var fjarlægður með valdi út úr Madison Sqaure Garden í miðjum leik New York Knicks á dögunum og var síðan settur í bann. Deilur Oakley og James Dolan, eiganda New York Knicks, hafa staðið lengið yfir en nú sprakk allt í loft upp með ásökunum á báða bóga.

Charles Oakley hefur aftur fengið leyfi til að koma í Madison Sqaure Garden en er enn mjög ósáttur því hann hefur ekki verið beðinn afsökunar. Hann átti frábæran feril með New York Knicks og er gríðarlega vinsæll meðal stuðningsmanna félagsins.

Draymond Green hefur tekið upp hanskann fyrir Charles Oakley eins og fleiri leikmenn í NBA-deildinni en það sem menn eru mest reiðir er að James Dolan gaf það út að Oakley ætti við drykkjuvandamál að stríða.

Charles Oakley spilaði aldrei fyrir New York Knicks meðan James Dolan var eigandi félagsins en það fór ekki vel í nýja eigandann þegar hann gagnrýndi klúbbinn. Sú gagnrýni átti nú kannski rétt á sér enda hefur verið hálfgerður brandari að fylgjast með rekstri verðmætasta félagi NBA-deildarinnar undanfarin ár.

Mörgum þykir Draymond Green samt vera kræfur að bjóða einum af eigendum félaganna í NBA upp í dans enda hafa þeir menn mikil völd. Það verður því fróðlegt að sjá hvernig James Dolan svarar þessu harða skoti Draymond Green.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×