Sport

Get gert fullt af hlutum miklu betur

Telma Tómasson skrifar
Jakob Svavar tefldi fram stóðhestinum Skýr frá Skálakoti sem hefur komið fram í A-flokki gæðinga en aldrei í íþróttakeppni.
Jakob Svavar tefldi fram stóðhestinum Skýr frá Skálakoti sem hefur komið fram í A-flokki gæðinga en aldrei í íþróttakeppni.
„Þetta var okkar fyrsta keppni og hesturinn ekki mikið undirbúinn, ég veit að ég get gert fullt af hlutum miklu betur,“ sagði afreksknapinn Jakob Svavar að lokinni forkeppni í fimmgangi í Meistaradeild Cintamani í hestaíþróttum, sem fram fór í Samskipahöllinni í Kópavogi í gærkvöldi.

Jakob Svavar tefldi fram stóðhestinum Skýr frá Skálakoti sem hefur komið fram í A-flokki gæðinga en aldrei í íþróttakeppni. Hann var því ánægður að vera þriðji efstur eftir forkeppni í fyrstu fimmgangskeppni hestsins og halda því sæti í A-úrslitum.

Í úrslitunum fékk Jakob jafnar og góðar einkunnir fyrir fjögur fyrstu sýningaratriðin, tölt, brokk, fet og stökk, en skeiðið, sem hefur tvöfalt vægi, hlaut ekki náð fyrir augum dómaranna. Lokaeinkunn Jakobs Svavars var 7.10 og þriðja sætið. 

Fimmgangskeppni í Meistaradeild Cintamani í hestaíþróttum var sýnd í beinni útsendingu á Stöð 2 sport og er meðfylgjandi myndskeið af sýningu Jakobs Svavars Sigurðssonar í forkeppninni.



Niðurstöður A-úrslita í fimmgangi voru eftirfarandi:

1. Hulda Gústafsdóttir - Birkir frá Vatni - 7.43

2. Guðmundur Friðrik Björgvinsson - Sjóður frá Kirkjubæ - 7.21

3. Jakob Svavar Sigurðsson - Skýr frá Skálakoti - 7.10

4. Þórarinn Ragnarsson - Hildingur frá Bergi - 7.02 

5. Árni Björn Pálsson - Oddur frá Breiðholti í Flóa 7.00 

6. Daníel Jónsson - Þór frá Votumýri 2 - 6.98 

7. Teitur Árnason - Hafsteinn frá Vakurstöðum - 6.38




Fleiri fréttir

Sjá meira


×